Innlent

„Þetta er ekki beint það sem fólk kaus“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Skiltið hans Jóhanns tók nokkrum breytingum eftir að borgin tók við hönnuninni.
Skiltið hans Jóhanns tók nokkrum breytingum eftir að borgin tók við hönnuninni. vísir

Breiðhyltingur, sem átti tillögu að skilti sem býður fólk velkomið í hverfið í hugmyndakeppninni Hverfið mitt í fyrra og var samþykkt, segir miður að endanleg hönnun skiltisins sé ekki í anda Breiðholtsins. Allan karakter vanti í útlit þess. 

„Það var aðallega leiðinlegt að sjá hvað eitthvað, sem getur verið svo stórt, flott og skemmtilegt, var lagt til hliðar fyrir eitthvað sem einhverjum sem kunna meira í fræðunum finnst fallegt og meira í takt við tímann. Þetta er ekki beint það sem fólk kaus,“ segir Jóhann Sveinsson, Breiðhyltingur og hugmyndasmiðurinn á bak við skiltið.

Jóhann vakti athygli á því á Twitter í dag að hönnun að Breiðholtsskiltinu væri tilbúin. Lítið og krúttlegt skilti, skrifar Jóhann á Twitter. Ekki beint í anda þess sem hann lagði til. Tillaga Jóhanns minnir óneitanlega á hverfisskilti frá Bandaríkjunum, stórt og valdeflandi eins og Jóhann orðar það. 

Niðurstaðan er öllu mínímalískari. Skandinavísk í útliti og rímar ekki vel að mati Jóhanns við hráan anda Breiðholtsins. Hann segist í samtali við fréttastofu viljað sjá útfærslu, sem líktist heldur þeirri tillögu sem  hann lagði upprunalega fram. 

„Já, sem var svona stórt og valdeflandi. Mér finnst leiðinlegt hvað er búið að draga úr stærðinni, leiðinlegt að þetta sé orðinn einhver álkassi.“

Fólk hafi haft samband við hann í dag og furðað sig á útfærslu borgarinnar. 

„Fólk er eiginlega bara hissa á því að það sé verið að gera eitthvað annað en allir kusu,“ segir Jóhann. 

Svekktur að svona fór

Ekkert samráð hafi verið haft við hugmyndasmiðina við hönnun skiltisins. Hann hafi fengið mynd af endanlegri hönnun skiltisins senda og fengið leyfi til að birta mynd af því. 

„Það var aldrei spurt: Finnst ykkur þetta flott? Viljið þið hafa þetta svona?“ segir Jóhann. 

Ertu svekktur að hönnunin sé svona en ekki eins og þú lagðir upp með?

„Já, eða það er bara leiðinlegt að þetta sé að falla í eitthvað svona form. Þetta skilti hefði getað verið svo mikil sérstaða. Það vantar karakter í skiltið.“

Rætt var við Jóhann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í haust þegar tillaga hans var kosin af hverfisbúum. 


Tengdar fréttir

Breið­holts­stiginn meðal þess sem hlaut flest at­kvæði

Um­deildur stigi sem byggður hefur verið á milli efra og neðra Breið­holts var meðal vin­sælustu verk­efnanna sem kosin voru til fram­kvæmda af í­búum Reykja­víkur á vegum sam­ráðs­verk­efnis Reykja­víkur við íbúa árið 2021. Verk­efna­stjóri segir stigann byggðan með það í huga að hægt verði að nýta hann allan ársins hring, hann muni með tímanum falla betur inn í skóginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×