Erlent

Segir í­búa Gasa ekki geta beðið en í­trekar rétt Ísrael til að verja sig

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Von der Leyen segir hjálpar þörf núna, íbúar Gasa geti ekki beðið.
Von der Leyen segir hjálpar þörf núna, íbúar Gasa geti ekki beðið. AP/Jean-Francois Badias

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur kallað eftir tafarlausu mannúðarhléi á átökum á Gasa en jafnframt ítrekað að Ísraelsmenn eigi rétt á því að verja sig gegn Hamas. 

Von der Leyen sagði á Evrópuþinginu í morgun að íbúar Gasa þyrftu lífsnauðsynlega á því að halda að tafarlaust tímabundið hlé yrði gert á átökum á svæðinu, á meðan samið væri um varanlegt vopnahlé.

Þá sagði hún skipið, sem nú er á leiðinni frá Kýpur til Gasa með 200 tonn af matvælum og neyðargögnum innanborðs, afrakstur fordæmalausrar alþjóðlegrar samvinnu. Ástandið á Gasa væri hörmulegra en það hefði nokkrum sinnum verið og á þeim stað að brátt yrði ekki aftur snúið.

„Við höfum öll séð fregnir af börnum að deyja úr hungri. Þetta má ekki verða og við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir það,“ sagði von der Leyen. 

Hún sagði Evrópusambandið myndu standa við 50 milljón evra fjárveitingu sína til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, að uppfylltum skilyrðum en markmiðið yrði að tryggja að hverri einustu evru væri varið eftir reglum sambandsins og rataði til Palestínumanna í neyð.

„Ísrael á að sjálfsögðu rétt á því að verja sig og ráðast gegn Hamas. En það verður ávallt að verja almenna almenna borgara í samræmi við alþjóðalög. Og nú er aðeins ein leið til að koma aftur á ásættanlegu flæði neyðargagna. Íbúar Gasa þarfnast tafarlauss mannúðarhlés sem getur leitt til varanlegs vopnahlés. Og þeir þarfnast þess núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×