Erlent

Hægri­menn taka fram úr sósíal­istum í Portúgal

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Luis Montenegro, formaður Lýðræðisbandalagsins, á kjörstað í dag.
Luis Montenegro, formaður Lýðræðisbandalagsins, á kjörstað í dag. EPA

Þingkosningar Portúgala fóru fram í dag. Mið-hægriflokkurinn Lýðræðisbandalagið virðist ætla að fara með sigur úr býtum en hann leiðir naumlega eftir að 92% atkvæða hafa verið talin. 

Mjótt er á munum milli Lýðræðisbandalagsins og Sósíalistaflokksins. Sá fyrrnefndi er sem stendur með 29,8 prósent atkvæða og og sá síðarnefndi með 28,7 prósent atkvæða. 

Á eftir þeim kemur popúlíski öfgahægriflokkurinn Chega með 19 prósent atkvæða. Fylgi þess flokks hefur nærri þrefaldast frá síðustu kosningum þegar hann hlaut rúmlega 7 prósent atkvæða. 

Nú er útlit fyrir að Lýðræðisbandalagið steypi Sósíalistum af stóli, en þeir hafa verið við stjórn frá árinu 2015.

Samkvæmt erlendum miðlum nær flokkurinn ekki hreinum meirihluta eins og staðan er núna. Það þýði að fram undan séu strembnar samningaviðræður um stjórnarsamstarf við Chega flokkinn. 

Kosningarnar koma í kjölfar afsagnar Antonio Costa sem forsætisráðherra í nóvember síðastliðnum. Costa, sem hafði gegnt embættinu í átta ár, sagði af sér vegna spillingarmáls sem upp kom í landinu. Fimm voru handteknir vegna málsins en Costa var ekki einn af þeim. Í afsagnarávarpinu sagðist hann hafa hreina samvisku og að hann tengdist ekki málinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×