Innlent

Hundi bjargað úr sprungu í Hafnar­firði

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Frá aðgerðunum í dag.
Frá aðgerðunum í dag. Landsbjörg

Björgunarsveit Hafnarfjarðar var boðuð út í dag þegar tilkynnt var um að hundur sem var á göngu með eiganda sínum við Stórhöfðastíg, hefði dottið ofan í þrönga og djúpa sprungu og kæmist hvergi.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að hópur frá björgunarsveitinni ásamt lögreglu hafi farið á vettvang. Hundurinn, Ylur, hafi borið sig sæmilega þrátt fyrir allt en sprungan hafi verið það þröng þar sem hann var, að hann hafi ekki getað snúið sér við.

Björgunarfólk hafi sett upp línur og einn úr sveitnni sigið niður, eins langt og komist var í þröngri sprungunni, sem dugði þó ekki til til að komast alveg að hundinum. 

Þá segir að björgunarmaðurinn sem fór niður hafi lítið getað hreyft sig í sprungunni og ekki náð til rakkans. Brugðið hafi verið á það ráð að láta annan spotta síga niður með lykkju, og eftir að eigandi hundsins fékk hann til að reisa sig við á móti björgunarmanni, hafi verið hægt að smeygja utan um hann og ná upp.

„Það voru fegnir félagar sem komust svo að endingu upp úr sprungunni, rakki og björgunarmaður hans,“ segir að lokum. 

Rakkinn Ylur virtist feginn að vera kominn upp aftur.Landsbjörg
Björgunarmaður undirbýr sig.Landsbjörg
Sprungan virðist þröng.Landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×