Fótbolti

„Vantaði meiri ógnun“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mikel Arteta á hliðarlínunni í kvöld.
Mikel Arteta á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Getty

Mikel Arteta sagði að lið hans Arsenal yrði að gera betur í seinni leiknum gegn Porto en Arsenal mátti sætta sig við 1-0 tap á útivelli í kvöld. Mark Porto kom í uppbótartíma.

Arsenal hefur verið á miklu flugi í ensku úrvalsdeildinni og unnið tvo stórsigra í röð í deildinni. Fyrst 6-0 sigur gegn West Ham og svo 5-0 gegn Burnley um helgina. Liðið tapaði hins vegar 1-0 gegn Porto í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld og gekk illa að skapa sér alvöru færi.

„Augljóslega þurfum við að gera betur þegar við náum ekki að vinna. Hvernig við fórum með boltann á þremur augnablikum djúpt á vellinum er ekki nógu gott,“ en mark Porto kom í lokin eftir að Arsenal tapaði boltanum á miðjunni.

„Nú er hálfleikur og við viljum vera í 8-liða úrslitum. Þú þarft að vinna andstæðinginn og það þurfum við að gera á Emirates-vellinum.“

Arsenal gekk á illa að skapa sér færi í leiknum og átti ekki skot sem hitti rammann í leiknum í kvöld.

„Okkur vantaði ógnun, miklu meiri ógnun og meiri grimmd þegar við vorum með boltann á síðasta þriðjungnum. Líka aftar á vellinum, meiri vilja til að koma þeim í vandræði. Við getum gert betur. Við spilum á heimavelli næst, þekkjum andstæðingana og vitum við hverju er að búast.“

Arteta endaði viðtalið á að ræða aðeins dómgæsluna og fannst ansi margar aukaspyrnur vera dæmdar í leiknum.

„Þeir brjóta oft taktinn í leiknum og það voru margar aukaspyrnur. Að leyfa það er ekki nógu gott og við verðum að gera betur. Það leit út fyrir að við mættum ekki snerta neinn, allt var aukaspyrna. Við lærum af því undirbúum okkur betur og græjum þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×