Enski boltinn

Öruggt hjá Brig­hton gegn lán­lausu liði Sheffi­eld United

Smári Jökull Jónsson skrifar
Simon Adingra og Danny Welbeck fagna einu marka Brighton í dag.
Simon Adingra og Danny Welbeck fagna einu marka Brighton í dag. Vísir/Getty

Brighton vann stórsigur á Sheffield United þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í dag. Brighton fer upp í 7. sæti deildarinnar eftir sigurinn.

Sheffield United var í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar fyrir leikinn í dag en Brighton var jafnt Chelsea og Wolves að stigum í 9. - 11. sæti.

Það voru aðeins þrettán mínútur liðnar af leiknum í dag þegar Mason Holgate fékk beint rautt spjald fyrir ansi groddaralega tæklingu á Kaoru Mitoma. Myndbandsdómarinn Michael Oliver sendi Stuart Atwell í skjáinn til að skoða atvikið en Atwell hafði upphaflega gefið Holgate gult spjald. Hann var þó ekki lengi að breyta um skoðun og botnliðið því manni færri.

Mason Holgate fékk rautt spjald fyrir þessa tæklingu á Kaoro Mitoma og eins og sést var lítið sem Holgate var sagt við þeirri ákvörðun dómarans.Vísir/Getty

Þetta nýtti lið Brighton sér til hins ítrasta. Facundo Buonanoette skoraði á 20. mínútu og Danny Welbeck bætti öðru marki við fjórum mínútum síðar.

Sheffield United tókst að skora undir lok fyrri hálfleiks en markið var dæmt af eftir skoðun myndbandsdómara. Ansi langan tíma tók að taka ákvörðun og voru liðsmenn Sheffield United allt annað en sáttir með dóminn.

Staðan í hálfleik 2-0 og lið Sheffield gerði ágætlega í að halda aftur af liði Brighton allt fram á 75. mínútu þegar Jack Robinson skoraði ansi klaufalegt sjálfsmark. 

Þá opnuðust flóðgáttir og Simon Adingra bætti tveimur mörkum við á skömmum tíma. Hann er nýkominn aftur til liðsins eftir að hafa unnið Afríkumótið með Fílabeinsströndinni og kemur greinilega sjóðandi heitur aftur til Brighton.

Lokatölur 5-0 og Sheffield United því áfram geirneglt við botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar en Brighton er komið í 7. sæti eftir sigurinn. Þetta er þriðji heimaleikurinn í röð þar sem Sheffield United fær á sig fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×