Innlent

Telur að lög­regla hafi átt við sönnunar­gögn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sveinn Andri Sveinsson er verjandi Sindra Snæs Birgissonar.
Sveinn Andri Sveinsson er verjandi Sindra Snæs Birgissonar. Vísir/Hulda Margrét

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar sakbornings í hryðjuverkamálinu svokallaða, telur að lögregla hafi átt við sönnunargögn í málinu, nánar tiltekið við byssu.

Í viðtali við fréttastofu útskýrir Sveinn að bæði Sindri og faðir hans hafi játað að breyta riffli úr einskota riffli í hálfsjálfvirkan riffill.

„Það er AR4 public-týpa sem er ekki herriffill,“ segir Sveinn Andri. „Hann játar að hafa breytt honum með þeim hætti að það er eitthvað gat, síðan er gaspípa leidd í gatið og síðan fest við fremra sigtið,“ bætir hann við og útskýrir að með þessu hafir riffillinn orðið hálfsjálfvirkur.

Feðgarnir hafi báðir borið um það fyrir dómi að faðirinn hafi ekki verið ánægður með framkvæmdina og beðið Sindra um að taka hana í sundur.

„Þannig þeir töluðu báðir um að hafa losað þessa gaspumpu, þannig að riffillin væri ekki lengur hálfsjálfvirkur, eins og hann var orðinn. Hann var í einhverja daga þannig. Hann breytir honum sjötta september og kallinn segir að hann hafi beðið hann um að breyta honum til baka þrettánda september,“ segir Sveinn sem minnist í kjölfarið á yfirheyrslu lögreglu.

„Í einni af fyrstu yfirheyrslunum þá spyr lögreglumaður: „af hverju er framsigtið laust?“ Þá liggur það fyrir. Því ef framsigtið er laust þá virkar ekki þessi sjálfvirkni. En svo þegar við erum komnir í myndatökurnar, og svo í tæknirannsóknina á byssunni, sem vitni báru um, þá er búið að festa þetta, allt saman, skorða og laga. Þetta heitir á ensku tampering with evidence.“

Aðalmeðferð málsins líkur í dag með málflutningi verjenda og saksóknara. Þar segist Sveinn ætla að taka þetta fyrir.

„Þarna er að mínu mati augljós sönnun þess að lögregla sé að meðhöndla með óeðlilegum hætti sönnunargögn í málinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×