Fótbolti

Vilja breyta reglum eftir mál Arnars

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson sést hér í símanum á meðan leikur Vals og Víkings fer fram en Arnar var í leikbanni í leiknum. Valsmenn kærðu afskipti Arnars eftir leikinn.
Arnar Gunnlaugsson sést hér í símanum á meðan leikur Vals og Víkings fer fram en Arnar var í leikbanni í leiknum. Valsmenn kærðu afskipti Arnars eftir leikinn. Vísir/Anton Brink

Stjórn Íslensks Toppfótbolta hefur lagt fram tillögu til ályktunar á ársþingi KSÍ síðar í mánuðinum. Tillagan kemur til eftir kærumál vegna leikbanns Arnars Gunnlaugssonar á síðustu leiktíð.

Ársþing KSÍ fer fram síðar í mánuðinum og verður formannskjör sambandsins þar í brennidepli en þrír aðilar hafa gefið kost á sér í embættið. Á þinginu verða ýmsar tillögur bornar upp til atkvæða eða til ályktunar og kennir ýmissa grasa þegar rýnt er í tillögurnar sem finna má á heimasíðu KSÍ.

Meðal þeirra er tillaga frá stjórn Íslensks Toppfótbolta en hún snýr að því þegar þjálfari eða forystumaður liðs er í leikbanni. Tillögunni er ætlað að skýra betur reglur sem gilda þegar þjálfari er í leikbanni en á síðustu leiktíð komst mál Arnars Gunnlaugssonar þjálfara Víkinga í hámæli eftir viðureign Víkings og Vals í Bestu deildinni.

Arnar var í leikbanni í leiknum en var í stúkunni á meðan á leik stóð og í símasambandi við þjálfarateymi sitt á varamannabekknum. Þá var Arnar einnig mættur í viðtöl við fjölmiðla að leik loknum.

Klara Bjartmarz, fráfarandi framkvæmdastjóri KSÍ, óskaði eftir því að aga- og úrskurðarnefnd sambandsins myndi taka málið fyrir og var niðurstaða nefndarinnar að Arnar hefði ekki gerst brotlegur við reglur. Valsmenn kærðu þá niðurstöðu og eftir mikið havarí voru Víkingar á endanum dæmdir til að greiða sekt vegna málsins.

Á heimasíðu KSÍ má nú sjá áðurnefnda tillögu frá stjórn Íslensks Toppfótbolta. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún sé uppfærsla á reglugerð í samræmi við agareglugerð FIFA.

„Á síðasta keppnistímabili þvældist mál þjálfara innan agakerfis KSÍ í margar vikur þar sem ákvæði þetta þótti ekki nægilega skýrt. Hér er tillaga um að uppfæra ákvæðið í samræmi við þá tækni sem mögulegt er að nota og í samræmi við skýrar agareglur FIFA,“ segir í greinargerð sem fylgir tillögunni og undirrituð af stjórn ÍTF.

Enginn sími, tölva eða fjölmiðlar

Ákvæðið sem umræðir er grein 12.7 í kaflanum „Viðurlög og refsingar“ í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðamál.

Í greininni kemur fram að þjálfari eða forystumaður sem tekur út leikbanni skuli vera á meðal áhorfenda mæti hann á leikstað. Þetta gildir frá og með einni klukkustund fyrir leik og þar til dómari flautar til leiksloka. Á því tímabili má viðkomandi ekki vera á leikvellinum, í boðvangi, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við sitt lið.

Í tillögu stjórnar Íslensks Toppfótbolta bætist síðan við eftirfarandi texti:

„Viðkomandi má ekki með neinum hætti vera í tengslum við lið sitt á sama tímabili, t.a.m. ekki í gegnum símtæki, tölvu eða með öðrum slíkum hætti. Jafnframt er viðkomandi óheimilt að taka þátt í fjölmiðlaviðburðum á leikvangi að leik loknum.“

Eins og áður segir verður tillagan tekin fyrir á ársþingi KSÍ síðar í mánuðinum. Tillöguna í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir

Víkingar sektaðir um hundruð þúsunda króna vegna sím­tala Arnars

Á­frýjunar­dóm­stóll KSÍ hefur komist að þeirri niður­stöðu að sekta Knatt­spyrnu­deild Víkings Reykja­víkur um 250 þúsund krónur vegna hátt­semi Arnars Gunn­laugs­sonar, þjálfara karla­liðs fé­lagsins, sem var í sam­bandi við starfs­lið sitt í gegnum síma í leik liðsins gegn Val þegar að hann tók út leik­bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×