Lífið

Kokkar í Krýsu­vík hjá fyrr­verandi eigin­manni og vini sínum

Árni Sæberg skrifar
Elías Guðmundsson og Sólveig Eiríksdóttir á brúðkaupsdaginn árið 2019. Í dag eru þau skilin en enn vinir og samstarfsfélagar.
Elías Guðmundsson og Sólveig Eiríksdóttir á brúðkaupsdaginn árið 2019. Í dag eru þau skilin en enn vinir og samstarfsfélagar. Instagram

Sólveig Eiríksdóttir, sem oftast er kölluð Solla og kennd við Gló eða Grænan kost, er komin í draumastarfið á meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Elías Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Krýsuvíkursamtakanna og fyrrverandi eiginmaður Sollu, bauð henni að vinna þar sem kokkur. Hún segir alla sína fyrrverandi vera vini sína.

Solla mætti í Bakaríið á Bylgjunni til þeirra Ásu Ninnu og Svavars Arnar í morgun. Þau fóru saman yfir víðan völl, meðal annars hvernig Solla fór úr því að vera hámenntaður textílhönnuður, með atvinnutilboð frá Álafossi á borðinu, yfir í það að vera heilsufæðisfrumuður. Gjaldþrot Álafoss spilaði þar nokkuð stóra rullu. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan:

„Þar sem númer þrjú er framkvæmdastjóri“

Solla segist vera farin að vinna á ný eftir að hafa lent í nokkuð alvarlegri kulnun, sem hún vildi ekki ræða nánar að þessu sinni en stakk upp á að hún kæmi einfaldlega aftur í þáttinn. Hún bjóði upp á námskeið í eldamennsk ásamt dóttur sinni Hildi.

Hana hafi einnig langað að byrja að vinna við eldamennsku aftur en þó alls ekki á veitingahúsi. Þá hafi lengi blundað í henni að vinna við að hjálpa fólki, sér í lagi fólki sem glímir við áfengissýki og aðra fíknisjúkdóma. 

Þess vegna hafi verið kærkomið þegar henni bauðst að vinna við eldamennsku á meðferðarheimilinu í Krýsuvík. „Þar sem númer þrjú er framkvæmdastjóri,“ sagði hún og vísaði þar til Elíasar Guðmundssonar, fyrrvarandi eiginmanns hennar. Þau voru saman í á tvo áratugi en héldu hvort í sína áttina árið 2021.

Þáttastjórnendur furðuðu sig á því hvers vegna Solla kallaði hann „númer þrjú“ en Solla sagði alla hennar fyrrverandi vera vini sína.

„Svo bara fannst mér svo gaman að vera þarna, ég er bara í hálfu starfi, ég elska að keyra þarna, ég elska að praktísera á fólkinu,“ segir Solla.

Sú eina sem hefur fengið að fara með hníf inn á Litla-Hraun

Þá segir Solla að hluti af starfinu sé að vera meira en bara kokkur fyrir þá sem eru í meðferð í Krýsuvík. Henni finnist félagslegi hluti starfsins mjög mikilvægur líka, enda sé hún mikil félagsvera.

Þá finnist henni gott að geta hjálpað fólki og hafi lengi fundist. Þannig hafi hún til að mynda haldið námskeið á Litla-Hrauni fyrir allmörgum árum.

„Sú eina sem fékk að fara með hníf og blandara þangað inn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.