Erlent

Tíu létust í hákarlaárásum í fyrra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þrátt fyrir að árásir séu tíðari við mannmargar strendur eru dauðsföll algengari á fáförnum slóðum.
Þrátt fyrir að árásir séu tíðari við mannmargar strendur eru dauðsföll algengari á fáförnum slóðum. Getty/Universal Images Group/Lindsey Nicholson

Tíu létust í kjölfar hákarlaárása árið 2023 en aðeins fimm árið á undan. Alls voru 69 bitnir í árásum í óvæntum árásum, ívið fleiri á brimbretti en að synda eða vaða.

Þetta eru niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar en samkvæmt frétt Guardian eru 22 árásir ekki inni í tölunum, þar sem þær áttu sér stað þegar hákörlunum var ögrað eða ógnað. Flestar af umræddum árásum áttu sér stað við spjótveiðar.

Fjórir létust í Ástralíu, þar sem 22 prósent árásanna áttu sér stað. 

Það vekur athygli að þrátt fyrir að árásum virðist hafa fjölgað á þéttbýlum svæðum, vegna aukinnar nálægðar manna og hákarla, verða mun fleiri dauðsföll á fáförnum svæðum. Ástæðan er sögð vera sú að þar sem mannfjöldinn sé, sé einnig að finna fleiri bjargráð, til að mynda búnað til að stöðva blóðflæði (e. tourniquet).

Auk dauðsfallanna fjögurra í Ástralíu létust tveir í Bandaríkjunum og einn í Mexíkó, einn í Egyptalandi, einn á Bahamaeyjum og einn í Nýju Kaledóníu.

 Sérfræðingar segja ástæðu þess að brimbrettakappar verða oftar fyrir árásum en aðrir þá að þeir líkist mjög selum að svamla við yfirborð sjávar. Í langflestum tilvikum var enda um „tilraunabit“ að ræða, það er að segja hákarlinn beit til að kanna hvers konar bráð væri um að ræða og hætti svo við.

Í nokkrum óvenjulegum tilvikum gerðu þrjár tegundir; hvítháfur, nautháfur og tígrisháfur, þó frekari atlögu að fórnarlömbum sínum og bitu þau ítrekað. Og í sumum tilvikum var um að ræða svo stórar skepnur að eitt bit dugði til að valda dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×