Erlent

Einn styður Ísrael og hinn Palestínu; báðum var sagt upp en að­eins annar endur­ráðinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Neel segist sannfærður um að það hafi átt þátt í ákvörðun NYU Langone að endurráða Masoud að nærri 100 þúsund undirskriftir söfnuðust honum til stuðnings.
Neel segist sannfærður um að það hafi átt þátt í ákvörðun NYU Langone að endurráða Masoud að nærri 100 þúsund undirskriftir söfnuðust honum til stuðnings. Getty/Noam Galai

Upp er komið áhugavert mál í Bandaríkjunum þar sem tveimur læknum var sagt upp eftir að þeir deildu færslum á samfélagsmiðlum, annar til stuðnings Ísrael og hinn til stuðnings Palestínu.

Aðeins síðarnefndi var endurráðinn og hefur fyrrnefndi höfðað mál gegn vinnustaðnum.

Dr. Benjamin Neel er sérfræðingur í krabbameinsrannsóknum, prófessor við New York University og yfirmaður krabbameinsdeildar heilbrigðisstofnunarinnar NYU Langone. 

Honum var sagt upp hjá NYU Langone í fyrra fyrir að deila samfélagsmiðlum til stuðnings Ísrael í kjölfar árása Hamas á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn en í sumum tilfellum var um að ræða skopmyndir þar sem hæðst var að Aröbum.

Kollegi hans við NYU Langone, ungur nýlæknir, var einnig látinn taka poka sinn vegna samfélagsmiðlafærslna um átökin á Gasa en hann var á öndverðum meiði og varði árásir Hamas; sagði þær þátt í frelsun Palestínumanna og hrekja landtökumenn á brott.

Neel hefur nú höfðað mál gegn NYU Langone en í gögnum málsins segir meðal annars að svo virðist sem kolleginn, Dr. Zaki Masoud, hafi fengið starfið sitt aftur en ekki Neel.

Auk þess að snúast um mismunun á grundvelli ólíkra skoðana varðar málið einnig rétt einstaklinga til að tjá sig á samfélagsmiðlum utan vinnutíma. Samkvæmt lögum í New York er bannað að segja mönnum upp fyrir að stunda „löglega frístundariðkun“ en notkun samfélagsmiðla er ekki nefnd sérstaklega.

Lögmenn NYU Langone vilja meina að samfélagsmiðlar falli ekki undir umrætt lagaákvæði en auk þess hafi Neel ekki verið látinn fara vegna notkunar sinna á samfélagsmiðlum heldur efnisinnishalds færslanna sem hann deildi.

Auk þess að deila skopmyndum af Aröbum deildi hann færslum þar sem það var dregið í efa að tveggja ríkja lausn væri möguleg á meðan Hamas-samtökin væru til.

Neel segir notkun sína á samfélagsmiðlum hins vegar klárlega falla undir „löglega frístundaiðkun“ og þá sé stuðningur hans við Ísrael órjúfanlegur þáttur af trúarlegri sannfæringu hans sem gyðingur. Þannig hafi ákvörðunin um að reka hann falið í sér mismunun á grundvelli trúar.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×