Skoðun

Leðurhommi

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Í Mogganum í fyrradag var bein tilvitnun í starfsmann þingflokks Sjálfstæðisflokksins og haft eftir honum í fyrirsögn „Það er BDSM-lögmaður að trufla showið mitt”. Stuttu áður (71 mínútu) hafði Mogginn birt sömu frétt með beinni tilvitnun í sama mann með fyrirsögninni „Það er einhver leðurhommi að að trufla showið mitt”.

Mogganum er að sjálfsögðu frjálst að breyta fyrirsögnum á eigin fréttum eins og Mogganum sýnist. Hins vegar vandast málið þegar fyrirsögninni er ætlað að vera bein tilvitnun í orð annarra.

skjáskot

Því þá vaknar sú spurning hvað viðkomandi, í þessu tilviki starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði í raun og veru: A) Það er einhver leðurhommi að trufla showið mitt? B) Það er BDSM-lögmaður að trufla showið mitt? eða C) Hvorugt? (sem er rétt, ég var á staðnum.)

Eftir stendur hvers vegna maðurinn sem vísað er til í beinni ræðu í fyrirsögn fréttar Moggans 30. janúar síðastliðinn, breyttist úr „leðurhomma” í „BDSM-lögmann”, 71 mínútu eftir birtingu fréttarinnar og fjórum dögum eftir að ummælin eiga að hafa verið látin falla.

Mogganum er frjálst að kalla mig leðurhomma, BDSM-lögmann, trukkalessu, eða hvað annað sem Mogganum dettur í hug. Því þó ég fyrirlíti skoðanir Moggans er ég reiðubúinn að verja rétt hans til þess að tjá þær. Það væri samt heiðarlegra af Mogganum að birta þessar skoðanir í eigin nafni í stað þess að skýla sér á bak við aðra við halda þeim fram.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×