Erlent

Óttast að um sé að ræða fugla­flensu í fyrsta sinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kóngamörgæsir á Suðurskautslandinu hafa aldrei smitast áður af fuglaflensunni, svo vitað sé.
Kóngamörgæsir á Suðurskautslandinu hafa aldrei smitast áður af fuglaflensunni, svo vitað sé. EPA-EFE/GEORGIOS KEFALAS

Í hið minnsta ein mörgæs á Suðurskautslandi er talin hafa drepist úr fuglaflensu. Fáist það staðfest er um að ræða í fyrsta sinn sem mörgæs í heimsálfunni drepst úr veirunni. Um var að ræða kóngamörgæs.

Vísindamenn hafa áður varað við því að H5N1 vírusinn, sem kenndur er við fuglaflensu, geti valdið mörgæsum óafturkræfum skaða. Þess er getið í frétt Guardian um málið að nú sé fengitími mörgæsa, tími þar sem þær safnist saman í stórum hópum.

Því hafi vísindamenn miklar áhyggjur af því að veiran geti dreifst hratt á meðal fuglanna. Kóngamörgæsir eru næst stærsta tegund mörgæsa í heiminum.

Tilfellið af fuglaflensunni greindist á eyju sem kennd er við Suður Georgíu. Þar óttast vísindamenn jafnframt að ein smámörgæs hafi einnig drepist úr flensunni.

Fram kemur í umfjöllun Guardian að staðfest tilvik fuglaflensu í smámörgæs hafi greinst á Falklandseyjum, í 1500 kílómetra fjarlægð úr vesturátt frá Suðurskautslandinu þar sem vísindamenn telja nú að tilfelli sé komið upp.

Þá hefur flensan dregið töluverðan fjölda sæljóna til dauða. Talið er að í hið minnsta fimmhundruð þúsund sjávarfugla hafi drepist úr flensunni í Suður-Ameríku einni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×