Innlent

Framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 í höfn

Árni Sæberg skrifar
Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 gætu hafist í sumar. Þessi mynd er af eldri systur hennar, Suðurnesjalínu 1.
Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 gætu hafist í sumar. Þessi mynd er af eldri systur hennar, Suðurnesjalínu 1. Vísir/Egill

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu Hraunavina, Landverndar, Landgræðslu- og umhverfisverndarsamtaka Íslands og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands um að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023, um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Þetta segir í úrskurði nefndarinnar, sem kveðinn var upp þann 25. janúar. Í fréttatilkynningu frá Landsneti segir að þar með séu öll framkvæmdaleyfi á línuleiðinni í höfn og samið hafi verið við stærsta hluta landeigenda.

Hjá umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytinu liggi fyrir beiðni um heimild til eignarnáms á hluta þriggja jarða sem línan liggur um og ósamið er við.

Undirbúningur fyrir framkvæmdir gangi vel og fram undan sé að bjóða út efni í loftlínur en innkaupum á jarðstreng sé lokið. Gangi allt að óskum verði jarðvinna boðin út i vor og framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 munu hefjast síðsumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×