Erlent

Íranir segjast ekki hafa átt að­komu að á­rásinni á Banda­ríkja­menn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásin var gerð á herstöðina „Tower 22“ í norðausturhluta Jórdaníu, skammt frá landamærunum að Sýrlandi.
Árásin var gerð á herstöðina „Tower 22“ í norðausturhluta Jórdaníu, skammt frá landamærunum að Sýrlandi. AP/Planet Labs PBC

Stjórnvöld í Íran hafa neitað að hafa átt aðkomu að drónaárásinni sem varð þremur hermönnum Bandaríkjanna að bana á herstöð í Jórdaníu um helgina.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði árásina hafa verið gerða af vígahópum studdum af Íran og hefur hótað hefndum.

Sendinefnd Íran við Sameinuðu þjóðirnar sendi frá sér yfirlýsingu um málið þar sem sagði að um væri að ræða skærur milli Bandaríkjamanna og andspyrnuhópa á svæðinu og að Íran hefði ekki átt þátt að máli.

Íslamska andspyrnuhreyfingin, nokkurs konar regnhlífasamtök vopnaðra hreyfinga sem hafa freistað þess að hrekja Bandaríkjamenn frá Írak og Sýrlandi, lýsti árásinni á hendur sér. Hreyfingin nýtur stuðnings Íran og er sögð hafa gerð tilraunir til að nýta sér ófriðin á Gasa til að auka árásir sínar.

Bandarískir hermenn í Írak og Sýrlandi hafa sætt nær daglegum loftárásum frá því að Hamas réðust á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem mannfall verður og eykur enn á spennuna á milli Bandaríkjanna og Íran.

Stjórnvöld í Íran hafa greint frá því að fjórir hefðu verið teknir af lífi í tengslum við aðgerð leyniþjónustu Ísrael, sem miðaði að því að framkvæma sprengjuárás á verksmiðju sem framleiðir búnað fyrir varnarmálaráðuneyti Íran.

Íran hefur sakað Ísrael um að hafa myrt fjölda embættis- og vísindamanna í tengslum við deilur ríkjanna um kjarnorkuáætlun fyrrnefnda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×