Innlent

Met slegið í raf­orku­notkun á höfuð­borgar­svæðinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lindahverfið í Kópavogi upplýst í skammdeginu.
Lindahverfið í Kópavogi upplýst í skammdeginu. Vísir/Vilhelm

Mesta rafmagnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu frá upphafi mældist í vikunni en fyrra met hafði staðið frá 2008. Aukin orkunotkun skýrist af orkuskiptum, fólksfjölgun og ferðamannastraumi. Reikna megi með tvöföldun í raforkudreifingu á næstu 20 til 30 árum.

Þetta segir í tilkynningu frá Veitum sem sjá um rafmagnsdreifingu í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, hluta Garðabæjar og á Akranesi.

Þar segir að afltoppurinn hafi náð 215,3 megavöttum en þá er miðað við meðalálag einnar klukkustundar. Fyrra metið mældist í desember 2008 og var 212,9 megavött.

Samdráttur eftir hrun og í Covid 

Í tilkynningunni segir að frá upphafi Rafmagnsveitu Reykjavíkur til ársins 2008 hafi sést veldisvöxtur í raforkunotkun. Eftir 2008 hafi hins vegar dregið úr notkun og þar spili nokkrir þættir inn í. Einna helst „bankahrun með minnkuðum umsvifum, umbreyting lýsingar frá glóperum yfir í LED og sparneytnari heimilistæki“. 

Þrátt fyrir fólksfjölgun hafi ekki orðið „samsvarandi aukning í rafmagnsnotkun“ og notkun á hvern íbúa lækkaði umtalsvert.  

Annað skeið samdráttar í raforkunotkun hafi hafist í nóvember 2018 og í gegnum byrjun heimsfaraldurs allt þar til á vormánuðum 2021. Þá hafi orðið verulegur viðsnúningur og raforkunotkun tók að aukast hratt fram til dagsins í dag.  

Aukin raforkunotkun frá 2021 skýrist af orkuskiptum, fólksfjölgun, meiri umsvifum í samfélaginu og miklum ferðamannastraumi.  Samkvæmt  útreikningum, segir í tilkynningunni, megi reikna með tvöföldun í raforkudreifingu hjá Veitum á næstu 20-30 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×