Enski boltinn

Búið að á­kveða daginn sem kæru­mál Man. City verða tekin fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland og Manchester City félagar eiga yfir sér 115 kærumál vegna brota á rekstrarreglum ensku úrvalsdeildarinnar.
Erling Haaland og Manchester City félagar eiga yfir sér 115 kærumál vegna brota á rekstrarreglum ensku úrvalsdeildarinnar. Getty/James Gill

Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, hefur tjáð sig hvenær um öll kærumálin gegn Manchester City verða tekin fyrir.

Það er búið að kæra og refsa Everton liðinu síðan að fréttist af því að enska úrvalsdeildin ætlaði að kæra Manchester City fyrir meira en hundrað brot á rekstrarreglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Þrátt fyrir það er það ekki orðið opinbert hvenær 115 kærumál Manchester City verða tekin fyrir hjá dómstól ensku úrvalsdeildarinnar.

Tíu stig voru tekin af Everton fyrir áramót fyrir brot á rekstrarreglum deildarinnar og bæði Everton og Nottingham Forest voru kærð fyrir brot á rekstrarreglum á mánudaginn. Everton gæti því misst fleiri stig en þessi tíu.

Masters kom fram fyrir þingnefnd í gær og sagði þar að það væri búið að ákveða daginn sem City menn fá tækifæri til að verja sig fyrir fyrrnefndum kærum en hann gæti bara ekki sagt frá því hvenær sá dagur verður.

„Ef eitthvað félag, hvort sem það eru meistararnir eða annað lið, hefur brotið reglur um eyðslu, þá væru þau í nákvæmlega sömu stöðu og Everton og Nottingham Forest,“ sagði Richard Masters við þingnefndarmenn.

„Fjöldi og eðli kæranna gegn Manchester City, sem ég augljóslega get ekki talað um hér, þýða það að þær verða teknar fyrir í allt öðru umhverfi,“ sagði Masters.

„Það er búið að ákveða daginn sem málið fær áheyrn. Því miður get ég ekki sagt ykkur meira nema að það sé gangur í þessu máli,“ sagði Masters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×