Innlent

Minnsta en skæðasta eld­gosið á Reykja­nes­skaga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrjú hús í Grindavík urðu hrauninu að bráð.
Þrjú hús í Grindavík urðu hrauninu að bráð. Vísir/Arnar

Eldgosið fyrir norðan Grindavík virðist hafa gefið upp öndina en engin kvika hefur sést kom upp síðan klukkan 1:08 í nótt. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands segir eldgosið það minnsta af þeim fimm sem orðið hafa á Reykjanesskaga frá 2021.

Eldgosið hófst rétt norðan við Grindavík klukkan 7:57 á sunnudagsmorgun. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands skrifar á Facebook að eldgosinu hafi lokið í nótt og því lifað einungis í rúmlega 41 klukkustund. Nefna ber að goslokum hefur ekki verið formlega lýst yfir.

„Við bíðum enn mælinga um stærð og rúmmál hraunsins, en nokkuð auðvelt er að fullyrða að gosið hafi verið það minnsta af þeim fimm eldgosum sem nú hafa orðið á Reykjanesskaganum frá 2021. Þrátt fyrir smæðina var þetta alvarlegasta eldgos hér á landi frá Heimaeyjagosinu 1973, sökum staðsetningar rétt við Grindavík og skemmdanna sem það olli,“ segir í færslu hópsins sem birt var fyrir um klukkustund. 

„Sé spáð í framhaldið þykir ljóst að atburðarrásinni er hvergi nærri lokið. Um miðjan dag í gær mældist áfram gliðnun inni í Grindavík yfir kvikuinnskotinu sem olli eldgosinu. Var það til marks um að ekki væri algjört jafnvægi komið á jarðskorpuna í kringum innskotið og að opnun nýrra gosopa sé ekki útilokuð.“

Hópurinn segir að sama skapi engan bug að finna á landrisi á kvikusöfnunarsvæðinu norður við Svartsengi og Eldvörp. Kvika hafi safnast þar saman sleitulaust síðan um miðjan október og nú valdið þremur kvikuinnskotum, sem leiddu til tveggja skammlífra eldgosa.

„Skýr merki eru um áframhaldandi landris á GPS mælum á svæðinu í kring um Svartsengi. Ekkert sig mældist í Svartsengi samhliða innskotinu sem olli eldgosinu, sem er óvenjulegt og þarfnast skoðunar.“


Tengdar fréttir

Engin kvika sést síðan klukkan eitt í nótt

Engin kvika hefur sést koma upp úr sprungunum norðan Grindavíkur síðan klukkan 1:08 í nótt. Vakthafandi náttúruvársérfræðingur segir eldgosið virðast hafa fjarað alveg út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×