Um­fjöllun: Ís­land - Svart­fjalla­land 31-30 | Björg­vin Páll tryggði dramatískan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Aron Pálmarsson og Arnar Freyr Arnarsson voru skiljanlega glaðir eftir sigurinn sæta í kvöld.
Aron Pálmarsson og Arnar Freyr Arnarsson voru skiljanlega glaðir eftir sigurinn sæta í kvöld. VÍSIR/VILHELM

Ísland ætlar ekki að spila neina rólega leiki á Evrópmóti karla í handbolta sem nú fer fram í Þýskalandi. Annan leikinn í röð var boðið upp á háspennuleik en að þessu sinni hafði Ísland betur, með minnsta mun. Lokatölur í Munchen 31-30 Íslandi í vil.

Björgvin Páll stóð fyrir sínu.Vísir/Vilhelm

Bæði lið þurftu á sigri að halda í dag þar sem Ísland gerði hádramatískt jafntefli við Serbíu í fyrstu umferð á meðan Svartfjallaland tapaði gegn Ungverjalandi. Líkt og gegn Serbíu þá fóru fyrstu sóknir beggja liða í súginn en Svartfellingar brutu ísinn eftir þriggja mínútna leik. Óðinn Þór Ríkharðsson – sem hafði klúðrað dauðafæri í sókninni á undan – jafnaði metin strax í næstu andrá.

Var þetta þemað næstu mínútur leiksins, Svartfellingar komust yfir og Íslendingar jöfnuðu. Hraðinn í upphafi leiks var mikill, eitthvað sem lærisveinar Snorra Steins Guðjónssonar vilja gera í von um að mótherjinn þreytist hægt og rólega. Líkt og síðasta leik var íslenska liðið að fara einstaklega illa með dauðafæri sem gætu kostað liðið þegar upp er staðið.

Þegar tæpar tíu mínútnur voru liðnar komst Ísland loks yfir, staðan þá 5-4 Íslandi í vil. Bæði lið hefðu getað verið búin að skora töluvert meira en Viktor Gísli Hallgrímsson byrjaði leikinn frábærlega líkt og hann gerði gegn Serbíu. Því miður var markvörður Svartfellinga einnig í stuði. 

Viktor Bjarki byrjaði leikinn af krafti.Vísir/Vilhelm

Að komast yfir kveiki hins vegar í íslenska liðinu og áður en Svartfellingar gátu sagt Ómar Ingi Magnússon var staðan orðin 7-4 Íslandi í vil. Við það virtist mesti skjálftinn úr íslenska liðinu sem var komið fimm mörkum yfir þegar stundarfjórðungur var liðinn, staðan 10-5. Svartfellingar svöruðu hins vegar með þremur mörkum í röð og ljóst að það stefndi í annan háspennuleik.

Leikurinn var frekar hraður það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en þegar gengið var til búningsherbergja var Ísland tveimur mörkum yfir, staðan 17-15. 

Bjarki Már í baráttunni.Vísir/Vilhelm

Segja má að síðari hálfleikur hafi verið áframhald á því sem átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks. Liðin sóttu hratt en tóku oft á tíðum undarlegar ákvarðanir og alltof mörg færi fóru í súginn, sérstaklega hjá okkar mönnum. 

Ómar Ingi Magnússon

Það nýttu Svartfellingar sér og þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan orðin jöfn 21-21. Við það rankaði íslenska liðið við sér af værum blundi. Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi tveimur mörkum yfir skömmu síðar, 24-22, ásamt því að spila frábæra vörn. 

Ómar Ingi átti góðan leik í dag.Vísir/Vilhelm

Eftir að vera svo gott sem fjarverandi gegn Serbíu þá minnti Ómar Ingi heldur betur á sig. Hann skoraði sjö mörk ásamt því að gefa fimm stoðsendingar.

Svartfellingar gáfust þó ekki upp og þökk sé markverði sínum var liðið enn í leiknum þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks, staðan þá 27-26 Íslandi í vil. Björgvin Páll Gústavsson hafði komið inn í lið Íslands í hálfleik og minnti sem betur fer á sig en hann varði oft á tíðum frábærlega, því miður náðu Svartfellingar oftar en ekki frákastinu.

Slæmi kaflinn

Þegar fimm mínútur voru eftir jöfnuðu Svartfellingar metin, 28-28 og skot Arons í næstu sókn geigaði. Þar með gátu Svarfellingar komist yfir á nýjan leik en þeir höfðu ekki verið yfir síðan í upphafi leiks. Það gerðu þeir en sem betur fer skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson strax í næstu sókn og áfram allt í járnum.

Í stöðunni 30-30 þegar 90 sekúndur voru til leiksloka fékk Ísland sannkallaða gjöf. Svartfellingar tóku vitlausa skiptingu, voru allt í einu með átta leikmenn inn á. Það þýðir að Ísland fékk boltann sem og Svartfellingar misstu mann af velli. Það nýtti Gísli Þorgeir sér og kom Íslandi yfir þegar mínúta lifði leiks.

Hetjan Björgvin Páll

Svartfjallaland, manni færri, stillti upp í lengstu sókn leiksins en sem betur fer þá varði Björgvin Páll lokaskot leiksins. Hans sjöunda varða skot í leiknum og eins marks sigur staðreynd, lokatölur 30-29. Ísland því komið með fjögur stig að loknum tveimur leikjum.

Næsti leikur Íslands er gegn Ungverjalandi á þriðjudaginn kemur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira