Erlent

Leið­togi NRA segir af sér

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Wayne LaPierre hefur stýrt samtökunum í þrjá áratugi.
Wayne LaPierre hefur stýrt samtökunum í þrjá áratugi. AP/Darron Cummings

Wayne LaPierre framkvæmdarstjóri samtaka skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum NRA hefur tilkynnt að hann muni láta af störfum frá og með næstu mánaðamótum. Hann er 74 ára gamall og hefur farið fyrir samtökunum í þrjá áratugi.

Samtökin eru áhrifamikil í bandarískum stjórnmálum og eru helstu baráttumenn stjórnarskrárvarna réttar Bandaríkjamanna til að eiga skotvopn. Þau hafa verið gagnrýnd fyrir umsvif sín vegna tíðra skotárása og fjöldamorða vestanhafs.

Milljörðum skotið undan

LaPierre og næstráðendur hans hafa verið sakaðir um að hafa dregið sér 64 milljónir dollara, um 8,7 milljarðar íslenskra króna, úr sjóðum NRA á þriggja ára tímabili og fara réttarhöld fram í því máli í New York-ríki á næstu dögum.

„Ég hef verið gildur meðlimur þessara samtaka stærstan hluta lífs míns og ég mun aldrei hætta að styðja NRA og baráttu þeirra til að verja stjórnarskrárvarinn rétt minn,“ segir hann í afsagnartilkynningu sinni.

Afsögnin mikilvægur sigur

LaPierre segir helstu ástæðu afsagnar sinnar vera heilsutengdan en segir jafnframt að ástríða sín fyrir málstaðnum hafi ekki dvínað. Letitia James ríkislögmaður New York-ríkis segir afsögn hans vera mikilvægan sigur í málinu en að embættið muni halda áfram að berjast fyrir því að hæstráðendur samtakanna svar til saka.

Samkvæmt BBC er ætlast til þess að réttarhöldin vari í sex vikur og mun sex manna kviðdómur dæma í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×