Handbolti

„Ég er ekki að fara að fela eitt­hvað“

Aron Guðmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var brattur í viðtali eftir leik
Snorri Steinn Guðjónsson var brattur í viðtali eftir leik Vísir/Hulda Margrét

Rétt rúm vika er í fyrsta leik strákanna okkar á EM í hand­bolta. Lands­liðs­þjálfarinn er sáttur með undir­búning liðsins sem hann segir vera á pari.

Þeir hafa nú lokið æfinga­búðum sínum hér á landi fyrir EM í Þýska­landi í næstu viku og heldur liðið nú út til Austur­ríkis þar sem leiknir verða tveir æfinga­leikir við heima­menn á næstu dögum.

Snorri Steinn Guð­jóns­son lands­liðs­þjálfari er á­nægður með stöðuna á hópnum nú rúmri viku fyrir fyrsta leik á EM þar sem liðið er í riðli með Serbum, Svart­fellingum og Ung­verjum í Munchen.

„Ég er ekki á þeim stað að geta sagt að við séum klárir í þetta en það eru enn nokkrir dagar til stefnu. Við eigum náttúru­lega tvo leiki fram­undan í Austur­ríki sem við þurfum að nýta vel og munum þar ef­laust fá fullt af svörum þar. Ég held að við séum á pari hvað okkur varðar í þessum undir­búningi og mér líður bara vel með þetta.“

Þessir komandi tveir leikir á móti Austur­ríki. Hvernig nálgastu þá? Ertu að fara sýna á spilin í þeim leikjum?

„Ég nálgast þá alla­vegana ekki þannig að ég sé að fara að fela ein­hverja hluti. Við þurfum bara að drilla okkur, hugsa um okkur sjálfa. Á meðan að okkar hlutir eru ekki í lagi, þá líður manni ekkert vel. Þannig að nei, ég er ekki að fara fela eitt­hvað.

En auð­vitað erum við samt að fara prófa hluti. Prófa upp­stillingar og reyna að finna taktinn, finna hvað okkur líður vel með og hverjir fúnkera best saman. Drilla okkar hluti í vörn og sókn. Það er líka alltaf þannig að ef þú ætlar að ná árangri, þá er besta leiðin til þess að spila vel og vinna leiki. 

Þótt það sé stutt í mót og að þessir leikir gegn Austur­ríki séu æfinga­leikir, þá nálgast ég þá bara þannig að ég ætla að vinna þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×