Viðskipti innlent

Gjald­þrot Stein­gríms nam nærri fimm­tán milljörðum króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steingrímur Wernersson.
Steingrímur Wernersson.

Skiptum er lokið í þrotabúi Steingríms Wernerssonar athafnamanns. Lýstar kröfur í búið námu 14,5 milljörðum króna.

Steingrímur var úrskurðaður gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember 2017 og var bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Samþykktar almennar kröfur námu um þrettán milljörðum króna og fengust greiddar 85,5 milljónir króna upp í kröfurnar eða innan við eitt prósent.

Skiptum í búið lauk þann 11. desember síðastliðinn en greint er frá skipalokunum í Lögbirtingablaðinu.

Steingrímur átti eignarhaldsfélagið Milestone ásamt bróður sínum Karli Wernerssyni. Karl var sömuleiðis úrskurðaður gjaldþrota í apríl 2018.

Þeir bræður hlutu fangelsisdóm fyrir umboðssvik í rekstri Milestone. Steingrímur var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti en Karl fékk 3,5 árs dóm. Þeir höfðu áður verið sýknaðir í héraði.

Þeir voru dæmdir fyrir að hafa mistnotað aðstöðu sína og valdið Milestone verulegu fjárhagstjóni með því að láta félagið fjármagna efndir á samningum sem voru félaginu óviðkomandi og bókhaldsbrot. Þá voru þeir dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone fleiri milljarða króna.


Tengdar fréttir

Milljarðadómur yfir Milestone-mönnum staðfestur

Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason voru í Hæstarétti í dag dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða króna. Hæstiréttur staðfesti þar með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í fyrra.

Steingrímur bendir á Karl bróður sinn

"Mér var haldið utan við allt, og ekki upplýstur um margt hjá Milestone,“ sagði Steingrímur Wernersson, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, Annar dagur réttarhaldanna í Vafningsmálinu fer fram í dómnum í dag.

Færði Lyf og heilsu til tvítugs sonar síns

Daginn eftir að fjárfestirinn Karl Wernersson var dæmdur í fangelsi í Hæstarétti var leiðréttum ársreikningi skilað og rúmlega tvítugur sonur Karls eignaðist Lyf og heilsu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×