Innlent

Með um 700 grömm af kókaíni falin inn­vortis

Atli Ísleifsson skrifar
Dómari í málinu mat hæfilega refsingu vera þrettán mánaða fangelsi.
Dómari í málinu mat hæfilega refsingu vera þrettán mánaða fangelsi. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu til þrettán mánaða fangelsisvistar vegna smygls á um 700 grömmum af kókaíni til landsins.

Konan var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en hún var með efnin falin innvortis þegar hún kom til landsins með flugi til Keflavíkurflugvallar 21. október síðastliðinn. Ekki er tekið fram í dómi hvaðan konan var að koma, en styrkleiki efnanna var 80 til 82 prósent.

Fram kemur í dómi að konan hafi játað brot sitt án undandráttar. Sakavottorð konunnar lá ekki fyrir í málinu og voru því engin gögn um að hún hafi áður gerst sek um refsiverða háttsemi.

„Af rannsóknargögnum málsins verður ekki séð að ákærða hafi verið eigandi fíkniefnanna eða skipuleggjandi innflutningsins en hefur hún samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu,“ segir í dómnum.

Þá segir að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að hegðun konunnar í gæsluvarðhaldsvistinni hafi verið til fyrirmyndar. „Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að ákærða flutti talsvert magn af kókaíni til landsins ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Aðkoma hennar er ómissandi liður í því ferli að koma efnunum í dreifingu hér á landi.“

Dómari í málinu mat hæfilega refsingu vera þrettán mánaða fangelsi en til frádráttar kæmi sá tími sem konan hafði setið í gæsluvarðhaldi. Þá var henni gert að greiða um 700 þúsund króna þóknun til skipaðs verjanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×