Golf

Sann­kölluð fjöl­skyldu­helgi hjá Tiger á golf­vellinum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tiger Woods ásamt syni sínum Charlie á Ritz-Carlton golfvellinum þar sem mótið fer fram.
Tiger Woods ásamt syni sínum Charlie á Ritz-Carlton golfvellinum þar sem mótið fer fram. Vísir/Getty

PNC-mótið í golfi fer fram í Orlando um helgina en þar spila leikmenn ásamt fjölskyldumeðlimi. Tiger Woods er mættur á svæðið og verður án efa í sviðsljósinu.

Tiger Woods er að snúa aftur á golfvöllinn eftir meiðsli en hann lék á sínu fyrsta móti í ansi langan tíma í byrjun mánaðarins. Um helgina tekur hann þátt í PNC-mótinu en þar er nokkuð óhefðbundið fyrirkomulag því leikmenn spila þar með meðlimi úr fjölskyldunni sinni.

Tiger spilar ásamt 16 ára syni sínum Charlie Woods líkt og þeir gerðu fyrir tveimur árum síðan. Charlie þykir efnilegur golfari og á æfingahring þeirra á föstudag spilaði hann meðal annars tvær holur í röð undir pari.

En þeir feðgar verða ekki þeir einu úr fjölskyldunni sem mæta til Orlando um helgina. Sam Woods, 16 ára dóttir Tiger, verður þar líka og mun bera kylfur fyrir föður sinn. Það verður því sannkölluð fjölskyldustemmning hjá Woods um helgina en þeir feðgar ætla sér að ná langt í mótinu.

Tiger og Sam Woods sem ber kylfur fyrir föður sinn um helgina.Vísir/Getty

„Hann er enn að vaxa,“ sagði Tiger um Charlie á blaðamannafundi eftir æfingahringinn á föstudag.

„Þú sérð hvað hann hefur bætt sig síðan í fyrra. Það er ótrúlegt að sjá hversu mikið hann hefur vaxið og breyst. Hann er búinn að stækka um tíu sentimetra á þessu ári svo sveiflan hefur breyst.“

Meðal annarra sem taka þátt á mótinu eru Justin Thomas og faðir hans og golfkennarinn Mike Thomas. Vijay og Qass Singh mæta sömuleiðis en þeir eiga titil að verja síðan í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×