Erlent

Grunur um að hinir hand­teknu tengist Hamas

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Flemming Drejer og Peter Dahl hjá rannsóknarlögreglunni í Danmörku og lögreglunni í Kaupmannahöfn ræða við blaðamenn síðdegis.
Flemming Drejer og Peter Dahl hjá rannsóknarlögreglunni í Danmörku og lögreglunni í Kaupmannahöfn ræða við blaðamenn síðdegis. EPA-EFE/MARTIN SYLVEST

Þýskir saksóknarar fullyrða að þeir þrír sem voru handteknir í Þýskalandi í dag og sá fjórði í Hollandi að beiðni þýskri yfirvalda hafi tengsl við Hamas-samtökin. Þrír til viðbótar voru handteknir í umfangsmiklum lögregluaðgerðum í Danmörku. Allir sjö eru grunaðir um skipulagningu hryðjuverka.

Um þetta var tilkynnt á sérstökum blaðamannafundi í Danmörku fyrr í dag þar sem fram kom að danska lögreglan hefði komist á snoðir um þessar fyrirætlanir með samvinnu við önnur lögregluteymi þvert á landamæri. BBC greinir frá.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur sagt að málið væri með alvarlegasta móti og verða hinir þrír handteknu ákærðir fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk.

Síðdegis sagði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels í yfirlýsingu á X, áður Twitter, að hinir handteknu hefðu starfað á vegum Hamas samtakanna.

Dönsk yfirvöld hafa ekki staðfest með óyggjandi hætti að Hamas tengist málinu en þó hefur Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra Danmerkur sagt að ætluð hryðjuverkaárás sé staðfesting á því að dönskum gyðingum kunni að vera búin hætta. 

Hann vildi þó ekki fullyrða um hvort grunur væri uppi um að hinir handteknu hefðu haft í hyggju að ráðast á gyðingasamfélagið í Danmörku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×