Innlent

Vöktuðu bryggjuna í Grinda­vík í nótt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Grindavíkurhöfn.
Frá Grindavíkurhöfn. Vísir/Vilhelm

Starfsmenn Grindavíkurhafnar og Vísis vöktuðu Grindavíkurhöfn í nótt vegna hættu á flóðum af völdum lægðarinnar sem gekk yfir landið. Leyfi fékkst frá almannavörnum til þess að mæta fyrr í bæinn í nótt.

Eins og fram hefur komið hefur Grindavíkurhöfn dýpkað eftir jarðhræringar undanfarinna vikna og bryggjur sigið um tuttugu til þrjátíu sentímetra. Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri, segir óvissuna vegna þessa nokkuð mikla.

„Menn voru að undirbúa sig undir það að það gæti flætt og við höfðum sérstakar áhyggjur af frystihúsi Vísis,“ segir Sigurður sem rifjar upp að mikið tjón hafi orðið í frystihúsinu í janúar í fyrra vegna flóðs.

„Óvissan er mikil vegna þess að bryggjurnar hafa sigið og við vitum ekki alveg hvaða áhrif það hefur. Við þurfum að læra upp á nýtt hvaða rullu það hefur að spila hér eftir,“ segir Sigurður.

Hann segir að það sé einnig til skoðunar að setja upp færanlega sjóvarnargirðingu í höfninni þannig að vatn renni ekki óhindrað að innviðum og mannvirkjum. Samkvæmt Sigurði fengu starfsmenn Vísis og hafnarinnar heimild frá almannavörnum til að mæta þremur tímum fyrir flóð í morgun sem varð klukkan 6:30.


Tengdar fréttir

Tjón upp á tugi milljóna og annað flóð í aðsigi

Tugmilljóna króna tjón varð í frystihúsi útgerðarinnar Vísis í Grindavík í dag þegar sjór flæddi inn í frystiklefann í óveðri. Viðbragðsaðilar dældu upp gífurlegu vatnsmagni og starfsfólk útgerðarinnar reyndi að bjarga því sem bjargað varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×