Handbolti

Færir ís­lensku þjóðinni góðar fréttir

Sindri Sverrisson og Aron Guðmundsson skrifa
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í handbolta.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í handbolta. Vísir/Getty

Innan við mánuður er til stefnu þar til ís­lenska lands­liðið hefur leik á EM í hand­bolta í Þýska­landi. Gísli Þor­geir Kristjáns­son ætlar sér að verða klár í slaginn þar.

Gísli sem leikið hefur lykil­hlut­verk í ís­lenska lands­liðinu undan­farin ár og er einn besti hand­bolta­maður heims, fór úr axlar­lið í leik með þýska liðinu Mag­deburg í undan­úr­slitum Meistara­deildar Evrópu í júní fyrr á þessu ári.

Gísli spilaði samt sem áður sjálfan úr­slita­leikinn degi síðar og átti stór­leik þegar Mag­deburg varð Evrópu­meistari en í kjöl­farið var svo á­kveðið að hann færi í að­gerð á öxl.

Undan­farna mánuði hefur hann því verið í endur­hæfingu og er nú kominn á þann stað að vera mættur aftur á leik­skýrslu með Mag­deburg og spyr ís­lenska þjóðin því að því þessa dagana hvort að Gísli verði klár með Ís­lenska lands­liðinu á EM í Þýska­landi í janúar?

„Ég geri 100 prósent ráð fyrir því að vera með á EM í janúar,“ segir Gísli í sam­tali við Vísi. „Það er ekkert annað en það sem kemur til greina. Þetta er það sem ég hef verið að stefna að í rauninni. 

Að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að vera með í janúar og leggja mitt af mörkum fyrir Ís­land. Þetta verður allt að halda á­fram á sömu braut og ég er mjög spenntur fyrir komandi vikum, að fá þessa leik­æfingu sem ég þarf og verða heill aftur.“

Gísli segir það ekki valda vinnu­veit­endum hans hjá Mag­deburg á­hyggjum að hann stefni ó­trauður á EM eftir að hafa verið svo langan tíma meiddur. Þeir sjái já­kvæðu hliðina á því að Gísli verði með lands­liðinu á EM.

„Við­mótið hjá þeim er í raun þannig að ég er heill og það amar ekkert að öxlinni þá taka þeir því bara vel að ég verði enn þá öflugri og í kringum hand­boltann allan tímann á EM. Þeir væru heldur ekki að fara láta mig spila ef að þeir væru með ein­hverja slæma til­finningu um að eitt­hvað myndi gerast. 

Það hefur því ekki verið neitt vesen af hálfu Mag­deburgar varðandi það að ég ætli mér á EM með ís­lenska lands­liðinu. Það mun bara hjálpa þeim líka að ég komi í góðu standi til baka.“

Þessi öflugi leik­maður ein­blínir nú á að taka næstu vikur fram að stór­móti, með trompi hjá Mag­deburg

„Númer eitt, tvö og þrjú núna er að fá góða til­finningu hand­bolta­lega séð. Fá þessar mínútur innan vallar og vera kominn í frá­bært stand fyrir EM. Að maður sé ekkert að pæla í því hvort maður sé heill eða ekki í janúar. Sé kominn á sama stað og aðrir og að mér verði enginn af­sláttur gefinn.

Mitt mark­mið er að taka þessar næstu vikur með Mag­deburg af fullum krafti og vonandi mun ég ekki þurfa að svara fyrir öxlina mína í janúar. Þá yrði sá kafli búinn og næsta skref yrði svo að hjálpa Ís­landi að komast upp úr riðlinum á EM. Taka EM með stæl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×