Menning

Vonast til að veita nýja og ferska sýn á ís­lenska myndlistasögu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Sigrún Hrólfsdóttir myndlistarkona stendur fyrir námskeiðinu Íslensk myndlist í 150 ár ásamt Æsu Sigurjónsdóttur, dósent í listfræði við HÍ.
Sigrún Hrólfsdóttir myndlistarkona stendur fyrir námskeiðinu Íslensk myndlist í 150 ár ásamt Æsu Sigurjónsdóttur, dósent í listfræði við HÍ. Aðsend

„Í hvert skipti sem farið er yfir söguna þá myndast nýr skilningur og ný mynd teiknast upp,“ segir myndlistarkonan Sigrún Hrólfsdóttir. Hún er ein tveggja kennara á námskeiðinu Íslensk myndlist í 150 ár sem hefst í janúar.

„Um er að ræða námskeið Endurmenntunar í samstarfi við Listasafn Íslands en námskeiðið skiptist í alls tíu hluta og lýkur í mars. Farið verður í vettvangsferðir í Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg og í Safnahúsið við Hverfisgötu og innifalið í verði er aðgangur að Listasafni Íslands á meðan námskeiðið varir,“ segir í fréttatilkynningu.

Sigrún segir að námskeiðið leggi áherslu á að skoða listasöguna á nýjan hátt.

„Auk þess er mjög dýrmætt að hitta fólk úr ólíkum áttum sem sækir námskeiðið og mun leggja til þekkingu í formi umræðna um málefnið.“

Myndlist móðir allra sjónrænna miðla

Sigrún segist lofa því að námskeiðið verði bæði lifandi og skemmtilegt og vonast til þess að það veiti þeim sem sækja það nýja og vonandi ferska sýn á íslenska myndlistarsögu.

„Myndlistin er móðir allra sjónrænna miðla og þeir skipa æ mikilvægari sess í samfélaginu. Allur almenningur nýtur myndlistar alla daga í ólíku formi, þannig að allir vita í rauninni mjög mikið um myndlist þó svo að þeir ræði hana kannski ekki dags daglega,“ segir Sigrún.

Hún hefur starfað sem myndlistarmaður í hátt í 30 ár og hefur mikla reynslu af myndlistinni frá hinni skapandi hlið og þekki vel til í þessum heimi.

„Ég bý líka yfir fræðilegri þekkingu í listum og heimspeki auk þess sem ég hef mikla reynslu af myndlistarkennslu á háskólastigi og hef starfað lengi við Listaháskólann. 

Ég hef einnig nýlokið rannsóknarverkefni við Listasafn Reykjavíkur þar sem ég skoðaði feril listakonunnar Hildar Hákonardóttur. 

Þetta verkefni opnaði augu mín enn frekar fyrir mikilvægi framlags kvenna í íslenskri listasögu. Og sú mynd verður dregin fram á þessu námskeiði.“

Hér má sjá viðtal við Hildi Hákonardóttur í Vísisþættinum Kúnst:

Ásamt Sigrúnu kennir Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands.

„Æsa er margreyndur sýningarstjóri og höfundur og ritstjóri margra bóka og fræðigreina um myndlist. Hún er einnig reynslumikill kennari við Háskóla Íslands og kemur til með að gefa námskeiðinu mikla fræðilega dýpt. 

Æsa hefur rannsakað íslenska myndlist og sett í samhengi við alþjóðlega strauma og orðræðu innan fræða um myndlist og sjónræna miðla,“ segir í fréttatilkynningunni.

Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands. Aron Brink

Vilja opna augu fólks fyrir hversu áhrifamikil myndlist er

Sigrún segir námskeiðið höfða til allra sem hafa almennan áhuga á menningu á Íslandi.

„Sömuleiðis þeirra sem starfa í menningargeiranum, söfnum eða við kennslu listgreina á öllum skólastigum. Einnig þeirra sem sjá fyrir sér að starfa á vettvangi safna eða í galleríum eða við kennslu listgreina.

Svo er þetta námskeið fyrir þau sem að starfa innan myndlistar eða hönnunar og arkítektúrs en hafa kannski útskrifast úr skóla fyrir nokkrum árum eða hafa menntað sig erlendis. 

Fyrir þau sem eru að hefja nám í listum eða hönnun. Fyrir þau sem eiga listaverk og vilja staðsetja þau í samhengi samtímalistarinnar. Fyrir öll sem njóta listar en vilja auka aðgang sinn að vettvangi myndlistarinnar.“

Með því að Listasafn Íslands komi að námskeiðinu telur Sigrún að það nái vel utan um þær ólíku hliðar sem listheimurinn samanstendur af.

„Það verður fjallað um myndlistarsöguna frá sjónarhóli listamanns, listfræðings og safnafólks. Þannig að ég tel engan vafa á því að þetta verður mjög dýnamískt námskeið sem mun opna augu fólks fyrir því hversu fjölbreytt og áhrifamikið svið myndlistin er.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×