Fótbolti

Kveikt í bílum eftir að liðið hans Pelé féll í fyrsta sinn í 111 ár

Sindri Sverrisson skrifar
Santos er fallið niður um deild í fyrsta sinn í sögunni.
Santos er fallið niður um deild í fyrsta sinn í sögunni. Ricardo Moreira/Getty Images

Brasilíska knattspyrnufélagið Santos, sem goðsögnin Pelé lék með nær allan sinn feril, féll í gær naumlega úr efstu deild, í fyrsta sinn í 111 ára sögu félagsins.

Santos tapaði 2-1 á heimavelli gegn Fortaleza í lokaumferðinni í gær og endaði því í 17. sæti, aðeins einu stigi frá næsta örugga sæti, eftir að hafa mistekist að vinna í síðustu fimm leikjum tímabilsins.

Þar með eru það aðeins Sao Paulo og Flamengo sem aldrei hafa fallið úr efstu deild Brasilíu.

Santos endaði stigi á eftir Bahia, sem er í eigu City Football Group, en Bahia vann 4-1 sigur á Atletico Mineiro í lokaumferðinni. Vasco da Gama bjargaði sér einnig frá falli með 2-1 sigri á Bragantino.

Útlitið var ágætt hjá Santos í seinni hálfleik þegar staðan var 1-1, og Vasco sömuleiðis að gera 1-1 jafntefli við Bragantino, en svo fór að gamla liðið þeirra Pele og Neymar féll eftir sigurmark Vasco á 82. mínútu og sigurmark Fortaleza í uppbótartíma.

Afar svekkjandi niðurstaða og stuðningsmenn Santos leyndu ekki vonbrigðum sínum, og kveiktu meðal annars í bifreiðum fyrir utan leikvang liðsins.

Á hinum enda töflunnar endaði Palmeiras á toppnum með 70 stig, tveimur stigum á undan Gremio, eftir að hafa gert 1-1 jafntefli við Cruzeiro í lokaumferðinni. Endrick, sem er á leið til Real Madrid í sumar, skoraði mark Palmeiras í leiknum.

Palmeiras varði þar með titilinn sinn og hefur orðið brasilískur meistari oftast allra liða eða tólf sinnum.

Besta lið heims á sínum tíma

Santos er fornfrægt lið og þá sérstaklega vegna þess að sjálfur Pelé heitinn spilaði með liðinu á sínum tíma, þegar hann var besti leikmaður heims. Liðið varð sex sinnum brasilískur meistari á sjötta áratug síðustu aldar og hefur alls unnið titilinn átta sinnum, næstoftast á eftir Palmeiras.

Santos vann einnig Copa Libertadores, suður-amerísku meistaradeildina, árin 1962 og 1963, og sömu ár vann liðið álfukeppnina þar sem bestu lið Evrópu og Suður-Ameríku mættust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×