Erlent

Mikið fann­fergi veldur vand­ræðum í Þýska­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Snjórinn hefur lamað flug- og lestarsamgöngur í Bæjaralandi.
Snjórinn hefur lamað flug- og lestarsamgöngur í Bæjaralandi.

Mikið fannfergi hefur valdið vandræðum í suðurhluta Þýskalands. Flug- og lestarsamgöngur liggja niðri í München.

Flugvellinum í Munchen var lokað klukkan ellefu í morgun og hafa flugvallaryfirvöld gefið út að hann muni vera lokaður að minnsta kosti til klukkan sex í fyrramálið. Samkvæmt Guardian hefur 760 áætluðum flugum verið aflýst eða frestað þar sem meira en fjörutíu sentímetrar af snjó féll á borgina aðfararnótt laugardags.

Yfirvöld í Bæjaralandi hafa ráðlagt fólki að halda sig heima af öryggisástæðum. Veðrið hefur einnig haft áhrif á lestarsamgöngur og Deutsche Bahn tilkynnt að engar lestir muni gera sér leið til München.

Ferðafólki er sagt að gera ráð fyrir töfum og aflýsingum í Bæjaralandi og úrvalsdeildarleik Bayern München og Union Berlin var einnig aflýst í ljósi aðstæðna.

Lögregluyfirvöld í Neðra-Bæjaralandi hafa sinnt yfir 350 útköllum vegna veðurs og fimm hafa slasast í umferðarslysum vegna hálkunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×