Innlent

Hættir hjá Geisla­vörnum eftir 38 ára starf

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður M. Magnússon tók við blómvendi á síðasta starfsdegi sínum hjá Geislavörnum í morgun.
Sigurður M. Magnússon tók við blómvendi á síðasta starfsdegi sínum hjá Geislavörnum í morgun. Stjr

Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna, lætur af störfum í dag. Hann hefur stýrt stofnuninni í 38 ár. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kvaddi Sigurð með blómvendi og kökuboði við þessi tímamót þar sem Sigurður rifjaði upp farinn veg í viðburðaríku starfi á sviði geislavarna sem spannar meira en fjóra áratugi.

Sagt er frá þessu á vef stjórnarráðsins. Nýr forstjóri stofnunarinnar er Elísabet Dolinda Ólafsdóttir.

Fram kemur að fyrsta íslenska löggjöfin um geislavarnir; lög um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislun frá geislavirkum efnum eða geislatækjum, hafi samþykkt á Alþingi árið 1962. Í kjölfarið hafi dómsmálaráðherra skipað nefnd að tillögu landlæknis um framkvæmd laganna. 

„Geislavarnastarfið var framan af nátengt röntgendeild Landspítala, enda umsvifin mest þar á þessu sviði við röntgenrannsóknir og geislalækningar. Með lögum nr. 50/1982 var Hollustuvernd ríkisins falið að annast geislavarnir og gilti það fyrirkomulag til ársins 1986 þegar Geislavarnir ríkisins voru settar á fót sem sjálfstæð lögbundin stofnun, undir yfirstjórn heilbrigðismálaráðherra, með lögum nr. 117/1985.

Sigurður M. Magnússon var skipaður af Ragnhildi Helgadóttur heilbrigðisráðherra til að veita Geislavörnum ríkisins forstöðu með skipunarbréfi sem tók gildi 1. janúar 1986. Hann hefur því leitt stofnunina og starfsemi hennar frá upphafi í samræmi við þau einföldu en skýru skilaboð sem fram komu í skipunarbréfi hans, um að halda stjórnskipunarlög ríkisins og vinna störf sín af árvekni og trúmennsku.

Sigurður og Willum Þór í morgun.Stjr

Trúnaðarstörf á alþjóðavettvangi

Undir stjórn Sigurðar hefur stofnunin verið í fararbroddi í rekstri ríkisstofnana og notið virðingar á alþjóðavettvangi. Sigurður hefur alla tíð lagt ríka áherslu á alþjóðlegt samstarf sem hefur átt þátt í því að skapa stofnuninni sterkan starfsgrundvöll. Í embættistíð sinni hefur Sigurður m.a. gegn stöðu formanns stjórnar Samtaka evrópskra geislavarnastofnana (HERCA) í 6 ár, hann var í nokkur ár forseti Norræna geislavarnafélagsins (NSFS) og í mörg ár stjórnarformaður Norrænna kjarnaöryggisrannsókna (NKS). Árið 2015 hlaut Sigurður Bo Lindell verðlaun NSFS fyrir mikilvægt framlag til geislavarna á norrænum og alþjóðlegum vettvangi um langan tíma. Þá hefur hann verið formaður geislavarnanefndar Alþjóðakjarnorkumála­stofnunarinnar (IAEA), virkur stjórnarmaður í Alþjóðageislavarna­samtökunum (IRPA) auk þess að hafa sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum, m.a. fyrir Alþjóðageislavarnaráðið (ICRP), Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og Kjarnorkumálastofnun OECD (NEA),“ segir á vef stjórnarráðsins.


Tengdar fréttir

Í forstjórastól eftir að hafa setið í öllum mögulegum stólum

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Elísabetu Dolindu Ólafsdóttur forstjóra Geislavarna ríkisins frá 1. desember næstkomandi. Frá árinu 2016 hefur hún gegnt starfi aðstoðarforstjóra stofnunarinnar samhliða hlutverkum gæðastjóra og starfsmannastjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×