Skoðun

Til stjórnar Breiða­bliks

Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Þann 30. nóvember n.k. á knattspyrnulið Breiðabliks að leika gegn ísraelska liðinu Maccabi Tel Aviv. Af því tilefni sendi ég ykkur þetta bréf og áskorun um að hætta við fyrirhugaðan leik gegn Maccabi Tel Aviv.

Heimurinn hefur að undanförnu horft með hryllingi á árásir Ísraelshers gegn íbúum Gazastrandarinnar. Engu er eirt, yfir ellefuþúsund Gazabúar drepnir í stórfelldum loftárásum og árásum skriðdrekasveita og stórskotaliðs sem skjóta á allt kvikt á einu þéttbýlasta svæði jarðarinnar.

Þessi grimmilega hrina morða er réttlætt með því að það verði að „drepa alla Hamasliða“ eins og forsætisráðherra Ísraels sagði í upphafi innrásarinnar. En aðeins lítill hluti þeirra föllnu eru liðsmenn Hamas.

Fórnarlömbin eru fyrst og fremst börn og mæður. Nær helmingur Gazabúa eru börn að aldri og stöðugar loftárásir og fallbyssuskothríð hefur leitt til dauða um sexþúsund barna auk þess eru á annað þúsund börn föst undir rústum heimila sinna og vonlítið að þau séu á lífi eftir marga daga án vatns og næringar.

Hvaða afstöðu sem menn hafa gagnvart Hamas og aðgerðum þeirra þá getur engin manneskja með réttlætiskennd fallist á framferði Ísraelsstjórnar og hersins sem hún hefur sent á vettvang. Hrannmorð á börnum og almennum borgurum er stríðsglæpur sem aldrei má líða.

Vestræn stjórnvöld hafa, þrátt fyrir margítrekuð brot Ísraels á alþjóðasáttmálum og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, slegið skjaldborg um framferði Ísraels með yfirlýsingum um að „Ísrael hefur rétt til að verja sig“.

Þá hlýtur sú spurning að vakna - hvað er það sem Ísrael er að verja?

Er það landránið á Vesturbakkanum? Er það bygging ólöglega aðskilnaðarmúrsins? Er það hið áratuga langa hernám og eyðilegging heimila Palestínumanna með stórvirkum jarðýtum, eða eru það morðin á tugþúsundum Palestínumanna sem hernámsliðið hefur drepið?

Ísrael er í raun að verja allt þetta og einnig apartheidstefnuna, rasismann og nýlendustefnuna sem þeir framfylgja af æ meira krafti á Vesturbakkanum og hyggjast nú hertaka Gaza að fullu.

Þegar stjórnvöld Vesturlanda bregðast ekki við brotum á alþjóðalögum með refsiaðgerðum líkt og gert er gagnvart Rússlandi núna og var gert á sínum tíma gagnvart stjórn aðskilnaðarstefnu grundvölluð á rasisma í S - Afríku, þá verður almenningur að taka til sinna ráða.

Með því að þrýsta á stjórnvöld getur almenningur mögulega náð fram stefnubreytingu.

En sterkasta vopnið í höndum almennings er víðtæk sniðganga á sviði menningarsamskipta, á sviði íþróttasamskipta og á sviði viðskipta. Sniðganga sem varir svo lengi sem ísraelsk stjórnvöld halda áfram að brjóta alþjóðasáttmála og mannréttindasáttmála sem kveða skýrt á að Palestínumönnum beri full mannréttindi og frelsi undan kúgun.

Allir þeir leikmenn sem hingað koma á vegum Maccabi Tel Aviv eru á þeim aldri að þeir eru annaðhvort hermenn í her Ísraels eða í varaliði hersins.

Ég skora á Breiðablik að hætta við fyrirhugaðan knattspyrnuleik gegn Maccabi Tel Aviv og senda með því skýr skilboð að íslenskt íþróttafólk styður mannréttindi.

Höfundur er formaður FÍP.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×