Erlent

Leið­togi Hamas segir sam­komu­lag um vopna­hlé á lokametrunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkomulag um tímabundið vopnahlé virðist á lokametrunum. Það snýst meðal annars um að skapa ráðrúm til að koma mannúðaraðstoð inn á Gasa.
Samkomulag um tímabundið vopnahlé virðist á lokametrunum. Það snýst meðal annars um að skapa ráðrúm til að koma mannúðaraðstoð inn á Gasa. AP/Mohammed Dahman

Aðstoðarmaður Ismail Haniyeh, leiðtoga Hamas, sendi Reuters yfirlýsingu í morgun þar sem hann sagði samtökin nálægt því að ná samkomulagi við Ísrael um vopnahlé.

Sagði að samtökin hefðu skilað svörum sínum til samningateymisins í Katar.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann teldi samkomulag næstum í höfn. „Við erum nær því nú en við höfum verið,“ sagði hann eftir að hafa sagst hóflega bjartsýnn fyrir helgi.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði samkomulagið snúast um lausn einhvers fjölda gísla í haldi Hamas gegn hléi á átökunum til að hleypa mannúðaraðstoð inn á Gasa.

AFP hefur eftir tveimur heimildarmönnum að samkomulagið feli í sér fimm daga hlé, vopnahlé á jörðu niðri og takmarkanir á loftárásum Ísraelsmanna í suðurhluta Gasa. Hamas muni á móti sleppa á milli 50 og 100 gíslum.

Meðal þeirra sem yrðu sleppt yrðu almennir borgarar sem teknir voru í Ísrael og erlendir ríkisborgarar en engir hermenn.

Izzat el Reshiq, embættismaður Hamas, segir samkomulagið einnig munu fela í sér lausn ísraelskra barna og kvenna gegn lausn palestínskra barna og kvenna í fangelsum í Ísrael. Stjórnvöld í Katar muni kynna endanlegt fyrirkomulag samkomulagsins.

Ísraelsher greindi frá því í morgun að hann hefði gert loftárásir á um það bil 250 skotmörk á síðasta sólahring. Al Jazeera segir árásir hafa verið gerðar á fjarskiptainnviði í Gasaborg og norðurhluta Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×