Innlent

Á­kærður fyrir að saka bróður sinn rang­lega um kyn­ferðis­brot gegn dætrum hans

Lovísa Arnardóttir skrifar
Málið fer fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Málið fer fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður fyrir rangar sakargiftir en hann tilkynnti bróður sinn til bæði Neyðarlínu og barnaverndar Hafnarfjarðar í febrúar árið 2020 fyrir að hafa brotið kynferðislega á dætrum sínum. Auk þess sagði hann manninn hafa deilt af brotum sínum barnaníðsefni á alþjóðlegar vefsíður.

Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að maðurinn hafi hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt bróður sinn. Maðurinn notaði ekki sitt rétta nafn þegar hann hringdi en tilkynnti um alvarlegt kynferðisofbeldi gegn tveimur dætrum mannsins, þar með talið nauðgun, og að maðurinn hefði deilt myndefni af brotum sínum á alþjóðlegri vefsíðu. Fyrst var greint frá málinu á vef RÚV. 

Í kjölfarið sendi hann tölvupóst á starfsmann barnaverndar Hafnarfjarðar þar sem hann lýsti ofbeldi mannsins ítarlega. Þar kom einnig fram að maðurinn hefði brotið á dætrum sínum í félagi við fjóra aðra menn. Það sæist á tveimur mismunandi myndböndum.

Maðurinn var í kjölfarið handtekinn og tekin könnunarviðtöl við tvær dætur hans. Um tíu mánuðum seinna, í nóvember, var rannsókn málsins hætt. Ekki kemur fram í ákæru hvers vegna rannsókn málsins var hætt.

Samanlagt er gerð einkaréttarkrafa um að maðurinn greiði átta milljónir í miskabætur og einnig lögmannskostnað.

Gerð er krafa um að ákærði greiði bróður sínum tvær milljónir í miskabætur og lögmannskostnað. Sömuleiðis er gerð krafa um að hann greiði dætrum mannsins, frænkum sínum, hverri 1,5 milljón í miskabætur og fyrir lögmannsaðstoð og sambýliskonu hans sömu upphæð í miskabætur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×