Innlent

Bátar verði fluttir úr höfninni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Grindavíkurhöfn í fyrradag.
Frá Grindavíkurhöfn í fyrradag. Vísir/Vilhelm

Landhelgisgæslan hefur það til skoðunar að aðstoða eigendur báta sem enn eru eftir í Grindavíkurhöfn að flytja þá annað. Nítján bátar eru enn við höfn.

„Það er verið að skoða það að aðstoða eigendur báta að flytja þá á öruggan stað. Það í raun og veru skýrist bara eftir hádegi þegar við sjáum hvað jarðfræðingar segja um framhaldið,“ segir Auðunn F. Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar í samtali við Vísi.

Eins og fram hefur komið funda vísindamenn nú um stöðuna og fara yfir nýjustu gögn vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Þá verður fundað með viðbragðsaðilum klukkan 11:00. 

Auðunn segir nítján báta eftir í höfninni. Ekki sé endilega víst að allir eigendur vilji flytja þá, það verði gert í samráði við eigendur.

„Við fórum aðeins í höfnina í gær og vorum að skoða hvort ekki væri í lagi með báta og löguðum aðeins til um borð í einum og svo erum við bara í biðstöðu um framhaldið.“

Varðskipið Þór er nú statt rétt austan við Hópsnes skammt frá Grindavík. Að sögn Auðuns er skipinu haldið utan hættusvæðis en eins og fram hefur komið nær kvikugangurinn undir Grindavík út á sjó og telja vísindamenn einhverjar líkur á því að það gjósi í sjó.

„Annars er bara allt rólegt. Við erum bara í biðstöðu, svo er spurning hvort að hún verði í nokkrar klukkustundir eða marga daga í viðbót,“ segir Auðunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×