Innlent

Erfitt að horfa á draugabæ sem á að vera fullur að lífi

Jón Þór Stefánsson og Kristján Már Unnarsson skrifa
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, segir Grindavík draugalega um þessar mundir.
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, segir Grindavík draugalega um þessar mundir. Vísir/Einar

Grindavík er orðin algjörlega mannlaus. Ekki einu sinni lögregla eða björgunarsveitir eru í bænum þessa stundina.

Aðgerðarstjórn almannavarna er ekki í Grindavík líkt og í fyrri gosum heldur í Reykjanesbæ, hreinlega vegna þess að það þykir ekki öruggt að vera þar.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, segir leiðinlegt að þurfa að kveðja bæinn sinn og skilja hann eftir tóman.

„Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því í orðum. Þetta er ógnvænlegt. Að vita það að maður getur ekki farið heim er ekki skemmtilegt.“

Aðspurður út í hvernig sé að horfa á tóman bæinn segir Bogi: „Þetta er draugalegt að sjá. Þetta er bær fullur af lífi, og ekki gaman að þessu.“

Bjarney S. Annelsdóttir segir aðstæðurnar krefjandi.Vísir/Einar

Mjög krefjandi

Bjarney S. Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir verkefni lögreglunnar í dag hafa snúist um að vinna með áætlanir fyrir hvern klukkutíma í senn.

„Þetta er mjög krefjandi, en þetta er bara verkefni sem við þurfum að takast á við. Þetta er örugglega meira krefjandi fyrir fólkið sem bíður svara, og við erum ekki með öll svörin í augnablikinu.“

Aðspurð um hvernig umfangsmikla rýmingaraðgerð gærnæturinnar hafi gengið og hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í þeim efnum svarar Bjarney: „Nei, ekki neitt. Þetta gekk ótrúlega vel og við erum ótrúlega stolt af Grindvíkingum og hvernig þau stóðu sig í þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×