Innlent

Um 800 skjálftar frá mið­nætti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Eignatjón er verulegt í Grindavík.
Eignatjón er verulegt í Grindavík. Vísir/Vilhelm

Enn er stöðug skjálftavirkni þótt hún hafi róast eitthvað. Kvikugangurinn virðist enn undir Grindavík. 

Almannavarnir héldu stöðufund um klukkan átta. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að fundurinn hafi aðallega verið til þess að stilla saman strengi. Staðan sé sú sama og í nótt.

Hún segir að fólk sé að snúa aftur úr hvíld en viðbragðsaðilar voru margir sendir heim eftir að rýmingu Grindavíkur lauk. Viðbragðsaðilar eru farnir frá Grindavík en enn löggæsla á staðnum. Þrír bílar eru á staðnum.

„Það er verið að meta stöðuna og fara yfir verkefni næstu klukkutíma.“

Hjördís segist ekki hafa heyrt neitt annað en að vel hafi gengið í fjöldahjálparstöðunum í nótt.

Hjördís Guðmundsdóttir stendur vaktina eins og margir aðrir. Vísir/Vilhelm

„Rýming gekk vel og fólk vissi greinilega hvernig þetta átti allt að fara fram. Þetta var ekki neyðarrýming þrátt fyrir að það hafi verið upplifunin. Það gekk mjög vel að rýma. En eftir situr að fólk keyrði frá bænum sínum og fylgja því eflaust erfiðar tilfinningar,“ segir Hjördís hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Aðeins róast skjálftavirknin

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur aðeins hægst á skjálftavirkni en enn mælast sterkir skjálftar.

Frá miðnætti hafa mælst um 800 skjálftar, sá stærsti var 4,4 að stærð að sögn náttúruvársérfræðings Veðurstofunnar, Sigríðar Kristjánsdóttur. Hann var rétt fyrir klukkan fimm í nótt.

Enn virðist kvikugangurinn liggja undir Grindavík og er skjálftavirknin sömuleiðis mest suðvestan við Grindavík.

Almannavarnir funda með Veðurstofunni klukkan 9.30. Fylgst er með gangi mála í vaktinni hér að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×