Innlent

Enn skelfur jörð með fjórum skjálftum yfir þremur

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Íbúar Grindavíkur eru margir orðnir langþreyttir á stöðugum jarðskjálftum.
Íbúar Grindavíkur eru margir orðnir langþreyttir á stöðugum jarðskjálftum. Vísir/Vilhelm

Ný skjálftahrina hófst í morgun á Reykjanesi. Fjórir skjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst síðan klukkan sjö. Náttúruvásérfræðingur býst við að staðan verði eins næstu daga.

Skjálftavirkni tók sig aftur upp eftir nóttina klukkan sjö í morgun.  Fjórir skjálftar hafa mælst 3,0 eða stærri, sá stærsti mældist 3,5 suðaustan við Sýrlingafell.

Einar Hjörleifsson náttúruvásérfræðingur segir skjálftana alla mælast á þónokkru dýpi, á um 5,7 kílómetra dýpi. Staðan sé enn óbreytt, kvikusöfnun sé á fimm kílómetra dýpi sem valdi spennubreytingum á svæðinu. 

Býst við óbreyttri stöðu næstu daga

Enginn gosórói mælist enn. Skjálftarnir í morgun hafa fundist vel í Grindavík en eru þó ekki í líkingu við skjálftana sem fundust í gærnótt. Þá mældist stærsti skjálfti hrinunar 4,8 að stærð rétt vestan við Þorbjörn. 

Einar segir að á meðan þennsla sé að aukast megi áfram búast við skjálftavirkni á svæðinu og skjálftum allt upp að stærð 5. Hann á von á því að staðan verði óbreytt næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×