Skoðun

Flugan Ísrael í neti köngu­lóarinnar

Einar Ólafsson skrifar

Í grein á Vísi 30. október, Köngulóarvefur Hamas, víkur Bjarni Már Magnússon prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst að margumræddri atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum um ástandið á Gasa og þeim slóðum. Hann bendir á að utanríkisráðuneytið „hefði viljað sjá breytingartillögu Kanada ná brautargengi sem tók skýrar á grimmdarverkum Hamas frá 7. október en upphaflega tillagan gerði“ og að það hefði verið eðlilegt þar sem þetta hafi verið fyrsta ályktunin frá lykilstofnunum S.Þ. um þetta mál.

Ályktun Allsherjarþingsins

Við lestur ályktunarinnar sýnist mér hins vegar ljóst að tillaga Kanada sé algerlega út í hött. Eins og Bjarni bendir á beinist ályktunin að mannúðarhlið átakanna. Hún snýst fyrst og fremst um praktíska lausn þess skelfilega ástands sem nú ríkir og að alþjóðalög verði virt sérstaklega hvað varðar vernd almennra borgara og hjálparstarfsmanna og aðgengi að nauðsynjum og nauðsynlegri þjónustu á Gasa-svæðinu. Ég hef gert nánari grein fyrir þessum tillögum í grein sem birtist á vefmiðlinum Neistar.

Í ályktunin er enginn einhliða fordæming. Eina fordæmingin kemur fram í því að ofbeldi gagnvart bæði palestínskum og ísraelskum borgurum er fordæmt, þar á meðal öll hryðjuverkastarfsemi, ögranir og eyðilegging. Ísrael er ávarpað aðeins einu sinni: Kallað er eftir að skipun Ísraels um að palestínskir borgarar og starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og aðrir hjálparstarfsmenn hverfi frá norðurhluta Gasa-svæðisins til suðurhlutans verði afturkölluð. Jafnframt er kallað eftir að borgurum, sem er haldið föngnum, verði tafarlaust og skilyrðislaust sleppt. Þar er augljóslega átt við gíslana sem teknir voru en væntanlega líka fólk sem Ísrael hefur í haldi án dóms og laga. Annars er alltaf talað um „alla aðila“ (all parties). Í tillögunni er lögð áhersla á hlutleysi þannig að öll ríki ættu að geta samþykkt hana, nema kannski Ísrael (Palestína er ekki fullgildur aðili að Sameinuðu Þjóðunum og hefur ekki atkvæðisrétt).

Það hefði því verið fullkomlega óeðlilegt að bæta inn í þessa ályktun einhliða fordæmingu á einum aðila.

Gengur upp að fordæma Ísrael?

Bjarni víkur síðan að orðum Jonasar Gahr Störe forsætisráðherra Noregs um að hann telji aðgerðir Ísraels á Gasa vera óhóflegar miðað við kröfur alþjóðalaga. Hann segir slíkar yfirlýsingar þjóðarleiðtoga verði að byggjast á viðhlítandi gögnum og upplýsingum og að kröfur um að íslensk stjórnvöld fordæmi Ísrael gangi tæplega upp að svo stöddu. Það má spyrja hvað hann telji viðhlítandi gögn og upplýsingar þegar ljóst er að Ísrael lætur sprengjum rigna yfir þéttbýlið á Gasa, myndir birtast af heilu íbúðarhverfunum í rúst, óyggjandi er að þúsundir manna, þar á meðal mikill fjöldi barna, hefur látið lífið, lokað hefur verið fyrir aðdrætti, þar á meðal rafmagn og vatn, og alþjóðlegar hjálparstofnanir, þar á meðal stofnanir Sameinuðu þjóðanna, hafa lýst því yfir að aðkoma þeirra sé hindruð og sjúkrahús séu óstarfhæf.

Í framhaldi af því segir hann: „Þótt Ísland hafi viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Palestínu þá hegðar stjórn Hamas sér ekki í samræmi við það sem ætlast má til af aðilum sem taka þátt í samfélagi þjóðanna á grundvelli virðingar fyrir alþjóðalögum.“ Og áréttar að viðurkenningu Íslands á Palestínu hafi ekki fylgt viðurkenning á Hamas. Vandséð er hvaða máli það skiptir í þessu samhengi. Það ljóst að Ísrael, sem Ísland hefur alla tíð viðurkennt og haft stjórnmálasamband við, hefur ekki heldur hegðað sér á þann hátt sem ætlast er til af Hamas.

Hvað þarf til að fordæma árásir á íbúðabyggðir?

Nú er lagaprófessorinn eflaust betur að sér um hina lagalegu hlið málsins. Ég veit þó ekki til að varðandi fordæmingu á aðgerðum annarra ríkja séu ríki bundin alþjóðalögum eða að þar til bær dómstóll eða alþjóðleg stofnun hafi kveðið upp úrskurð. Íslensk stjórnvöld biðu ekki eftir neinum slíkum úrskurði áður en þau – að sjálfsögðu – fordæmdu samdægurs innrás Rússa í Úkraínu. Sérfræðingar (special rapporteurs) Sameinuðu þjóðanna hafa sakað Ísrael um stríðsglæpi sem og virt mannréttindasamtök eins og Mannréttindavaktin (Human Rights Watch) og Amnesty International og fleiri. Varðandi átökin á Gasa lýsti rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna (Independent International Commission of Inquiry on the Occupied Palestinian Territory) því yfir 10. október að miklar líkur væru á að stríðsglæpir hefðu verið framdir í Ísrael og á Gasa, gíslataka vopnaðra hópa frá Gasa sé stríðsglæpur, og jafnframt hefði hún miklar áhyggjur af árásum Ísraels á Gasa og yfirlýsingum ísraelskra stjórnvalda um sameiginlega refsingu sem er stríðsglæpur samkvæmt Genfarsáttmálanum. Hafi nefndin haft áhyggjur af stríðsglæpum strax 10. október hljóta þær áhyggjur að hafa vaxið nokkuð á þrem þrem vikum sem síðan eru liðnar. Það má því kallast nokkuð mikil varfærni að segja að fordæming á aðgerðum Ísraels gangi tæplega upp að svo stöddu.

Ísrael í neti Hamas

Vangaveltur greinarhöfundar um hvernig leiðtogar Hamas og bakhjarlar þeirra hafa „fest Ísrael í köngulóarvef þar sem öll viðbrögð magna upp málstað hryðjuverkasamtakanna í hugum þeirra sem ekki hafa skilning á við hvað er að etja“ læt ég liggja milli hluta að sinni, þótt líkingin sé svolítið hæpin þar sem venjulega eru það smáflugur sem festast í vef köngulóarinnar. Og svo má líka spyrja í hugum hverra þessi viðbrögð hafa magnað upp málstað hryðjuverkasamtakanna.

Höfundur er ljóðskáld sem hefur fylgst með málefnum Palestínu í hálfa öld.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×