Innlent

Freistar þess að koma breytingum á lög­reglu­lögum í gegn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur í samráðsgátt birt frumvarp að breytingum á lögreglulögum sem meðal annars veita lögreglu auknar heimildir til eftirlits nái þær fram að ganga.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur í samráðsgátt birt frumvarp að breytingum á lögreglulögum sem meðal annars veita lögreglu auknar heimildir til eftirlits nái þær fram að ganga. Vísir/Vilhelm

Guðrún Hafsteinsdóttir, sem tók við sem dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni í sumarbyrjun, hefur birt drög að frumvarpi um breytingar á lögreglulögum í samráðsgátt til umsagnar en Jóni tókst ekki að koma þeim breytingum sem hann vildi gera á lögunum í gegn á síðasta þingi. Með breytingunum á lögreglan að fá auknar heimildir til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit.

Í viðtali við Stöð 2 síðastliðið sumar sagði Jón að ósamstaða hefði fellt frumvarpið og útskýrði að ráðherra í ríkisstjórninni hefði haft fyrirvara um þetta tiltekna mál. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði við sama tækifæri að henni hefði fundist að í frumvarpinu væri ekki „nægjanlega vel búið um“ eftirlit með þeim auknu valdheimildum sem frumvarpið boðaði. Vinstri græn telji að breytt hlutverk lögreglu kalli á aukið eftirlit með henni.

Nú ætlar Guðrún að gera tilraun til að koma breytingum á lögreglulögum alla leið í gegn. Í Samráðsgátt segir að frumvarpið sé nú lagt fram á ný en þó með breytingum. Þær helstu lúta að stofnun embættis gæðastjóra lögreglu, breytingum á skipan nefndar um eftirlit með lögreglu og lögfestingu stýrihóps um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi, auk þess sem kveðið er skýrar á um það hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt þegar ákvörðun um að viðhafa eftirlit er tekin og um lögbundna árlega skýrslugjöf um eftirlit með lögreglu til allsherjar- og menntamálanefndar.

Rökstyðja þörf fyrir auknum heimildum með breyttu afbrotamynstri

Sérsveitin að störfumVísir/Vilhelm

Markmiðið að frumvarpinu er að gefa lögreglunni lagastoð fyrir forvirkum rannsóknarheimildum sem í frumvarpinu eru kallaðar afbrotavarnir. Vísað er til skipulagðrar brotastarfsemi, hryðjuverka og annarra brota gegn öryggi ríkisins í rökstuðningi með breytingunum.

„Á síðustu árum hafa komið fram skýrar vísbendingar um að umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hafi tekið verulegum breytingum hér á landi til hins verra. Hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafa það að atvinnu að fremja fjölda afbrota með skipulegum hætti, þar á meðal alvarleg ofbeldisbrot, þjófnað, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti.“

Um alvarlegri brot á borð við hryðjuverk segir þá: „enda ógna þau ekki aðeins sjálfstæði ríkisins og innviðum þess heldur einnig almennum borgurum og öllum sviðum þjóðfélagsins. Baráttan gegn brotum þessum er annars eðlis en almenn löggæsla í ljósi mikilvægis og nauðsynjar þess að lögregla geti brugðist við áður en slík brot eru framin. Vegna þessa hafa yfirvöldum, víðast hvar í hinum vestræna heimi, verið falin sérstök úrræði til að afstýra hryðjuverkum og öðrum brotum gegn öryggi viðkomandi ríkja.“

Í frumvarpinu er fjallað um greiningarstarf lögreglu og grundvöllur lagður fyrir innleiðingu á „upplýsingamiðaðri löggæslu“ sem heitir á ensku „intelligence led policing“ og er vísað til í frumvarpinu.


Tengdar fréttir

„Jón hefur verið að fylgja stefnu flokksins og ég mun fylgja stefnu flokksins“

Guðrún Hafsteinsdóttir, nýsleginn dómsmálaráðherra, segir fyrirrennara sinn Jón Gunnarsson hafa verið gríðarlega öflugan í starfi. Hann hafi ýtt mikilvægum málum úr vör og hún muni sigla þeim örugglega í höfn og nefnir sérstaklega útlendingamálin, sem séu þau mikilvægustu í íslensku samfélagi.

Aukin heimild til eftir­lits nái frum­varpið fram að ganga

Nýtt frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum felur í sér að lögregla fái heimild til að viðhafa sérstakt eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi, án þess þó að þeir séu grunaðir um afbrot. Frumvarpið felur einnig í sér að eftirlit með störfum lögreglu verður eflt frá núverandi mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×