Fótbolti

Þjálfari Lyon al­blóðugur eftir að rúta liðsins var grýtt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fabio Grosso var illa farinn eftir árásina á rútu Lyon.
Fabio Grosso var illa farinn eftir árásina á rútu Lyon. ESPN

Leik Marseille og Lyon í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var frestað eftir að stuðningsfólk Marseille grýtti liðsrútu Lyon með skelfilegum afleiðingum.

Rúta Lyon var rétt ókomin að innganginum á Stade Velodrome, heimavelli Marseille, þegar hún var grýtt af stuðningsfólki heimaliðsins.

Myndefni sýnir Fabio Grosso, þjálfara Lyon, alblóðugan og leiddan inn á leikvanginn af tveimur aðstoðarmönnum þar sem gert var að sárum hans. Grosso slasaðist þar sem rúður rútunnar brotnuðu og fékk hann skurð á höfuðið.

Aðeins klukkustund áður en leikurinn átti að hefjast ákváðu forráðamenn Ligue 1, frönsku úrvalsdeildarinnar, að fresta leiknum.

Bæði Marseille og Lyon hafa átt skelfilega erfitt uppdráttar það sem af er tímabili. Marseille er með 12 stig í 9. sæti á meðan Lyon er með þrjú stig í botnsæti deildarinnar.

Fabio Grosso skarst illa á andliti.L'Équipe




Fleiri fréttir

Sjá meira


×