Innlent

Segir ekkert eld­gos að byrja en hrinan haldi á­fram

Oddur Ævar Gunnarsson og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Íbúar á Reykjanesi hafa fundið fyrir skjálftunum.
Íbúar á Reykjanesi hafa fundið fyrir skjálftunum. Vísir/Vilhelm

Jarð­eðlis­fræðingur segir að skjálfta­hrinan á Reykja­nesi muni að öllum líkindum halda á­fram. Hann segir ekkert benda til þess nú að eld­gos sé við það að hefjast. Hann segir ekkert nýtt að frétta í Bárðar­bungu, þrátt fyrir stóran skjálfta sem mældist þar í gær.

„Ja, það er ekkert á mæla­netinu sem bendir til þess að það sé að byrja eld­gos,“ segir Bene­dikt Gunnar Ó­feigs­son, jarð­eðlis­fræðingur í sam­tali við frétta­stofu.

Rætt var við Bene­dikt í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld en eins og fram hefur komið hefur verið lýst yfir ó­vissu­stigi al­manna­varna á Reykja­nes­skaga vegna jarð­skjálfta­hrinu. Síðast mældist skjálfti 3,6 að stærð við Grinda­vík í kvöld.

„Raunar sýna af­lögunar­gögn að það er ó­lík­legt að þarna sé um kviku að ræða. Það er engin af­lögun tengd þessu og þá er mjög erfitt að á­lykta að þetta sé kviku­tengt.“

Þið getið ekkert sagt til um á hversu miklu dýpi kvikan er?

„Við sjáum engin merki um kviku­hreyfingar í tengslum við þessa hrinu. Þannig að þetta er lík­lega trig­geruð virkni vegna land­rissins sem er undir Fagra­dals­fjalli,“ segir Bene­dikt.

„Þar er kvika, lík­lega á 13-17 kíló­metra dýpi að safnast fyrir og valda þenslu, víð­áttu­mikilli þenslu sem sést um mest allt Reykja­nesið og þetta veldur spennu­breytingum, um allt Reykja­nesið og það er lík­lega það sem er að trig­gera þessa virkni sem er núna. Mjög lík­legt ef þetta heldur á­fram að þá verði meiri skjálfta­virkni á Reykja­nesinu.“

Áttu von á stærri skjálftum?

„Við getum ekkert sagt um það hvort það verði stærri skjálftar, það er ekkert hægt að spá fyrir um það en á­fram­haldandi land­ris þarna við Fagra­dals­fjall er lík­lega að fara að valda meiri skjálfta­virkni á Reykja­nesinu.“

Lengi skjálftar í Bárðar­bungu

Um skjálfta í Bárðar­bungu, þar sem mældist skjálfti af stærðinni 4,9 í gær­kvöldi, segir Bene­dikt að ekkert nýtt sé að frétta þaðan. Slík virkni hafi verið undan­farin ár.

„Það hafa verið af og til stórir skjálftar síðan að Holu­hrauns­gosinu lauk. Þetta tengist kviku­söfnun undir Bárðar­bungu en hún hefur verið í gangi síðan áður en gosi lauk. Þetta er fram­hald af því. Við getum í rauninni ekkert sagt um meir en það. Á sjöunda ára­tugnum voru til dæmis oft stórir skjálftar í Bárðar­bungu og það liðu ára­tugir þar til að gaus. Þannig að þetta segir okkur ekkert mikið um ein­hvern að­draganda alveg strax en bara hluti af þessu ferli.“


Tengdar fréttir

Skjálfti 4,5 að stærð við Grinda­vík

Jarðskjálfti af stærðinni 4,5 mældist nærri Grindavík klukkan 8:18. Skjálftinn er annar sem mælist yfir þremur að stærð á Reykjanesi í morgun. Jarðskjálftinn fannst vel á Reykjanesi, á höfuðborgarsvæðinu og alla leið upp á Akranes. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×