Erlent

Lítt þekkt baktería or­sök fjölda­dauða fíla í Afríku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það vakti strax athygli þegar fílarnir fundust að skögultennur þeirra höfðu ekki verið fjarlægðar og því ekki um veiðiþjófnað að ræða.
Það vakti strax athygli þegar fílarnir fundust að skögultennur þeirra höfðu ekki verið fjarlægðar og því ekki um veiðiþjófnað að ræða. epa/STR

Vísindamenn telja sig mögulega hafa fundið svarið við því hvers vegna 350 fílar drápust í Botsvana árið 2020 og 35 í Simbabve. Fílarnir voru af báðum kynjum og á öllum aldri og sumir gengu í marga hringi áður en þeir féllu skyndilega niður.

Engar augljósar vísbendingar voru um dánarorsök skepnanna en yfirvöld í Botsvana sögðu líklega um að ræða einhvers konar blábakteríusýkingu. 

Nú liggja hins vegar fyrir niðurstöður rannsókna sem sýna að dauða fílanna má líklega rekja til lítt þekktrar bakteríu sem ber heitið Pasteurella Bisgaard taxon 45, sem hefur leitt til blóðsýkingar.

Þetta er í fyrsta sinn sem vitað er að bakterían hafi leitt til dauða meðal fíla en vísindamennirnir telja mögulegt að hún hafi einnig verið orsakavaldur dauða fleiri fíla í nágrannaríkjum Botsvana.

Aðstandendur skýrslu um málið sem birtist í Nature Communications segja um að ræða mikilvæga uppgötvun sem muni hafa áhrif á aðgerðir til að vernda tegundina, sem er í útrýmingarhættu.

Afrískum fílum fækkar um 8 prósent á ári, aðallega vegna veiðiþjófnaðar. Stofninn telur nú aðeins um 350 þúsund villt dýr og niðurstöðurnar benda til þess að smitsjúkdómar séu enn ein hættan sem steðjar að fílnum.

Pasteurella bakteríur hafa áður verið tengdar við dauða 200 þúsund saiga-antílópa í Kasakstan. Vísindamenn telja bakteríuna að finna í hálsi flestra, ef ekki allra, antílópa en að skyndileg hitaaukning hafi orðið til þess að bakterían barst út í blóðið og olli sýkingu.

Bisgaard taxon 45 hefur einnig fundist í ljónum, tígrisdýrum, íkornum og páfagaukum.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.


Tengdar fréttir

Dular­fullur fíla­dauði í Botsvana

Rúmlega 350 fílar hafa drepist í norðurhluta Afríkuríkisins Botsvana síðustu mánuðina. Enn hefur ekki komið fram opinber skýring á dauða fílanna og hafa tafir orðið á sýnatöku fulltrúa yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×