Innlent

Beitti pipar­úða á dyra­verði sem hleyptu honum ekki inn

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan hafi nóg að gera í miðbænum í nótt.
Lögreglan hafi nóg að gera í miðbænum í nótt. Vísir/Kolbeinn Tumi

Lögregla aðstoðaði dyraverði skemmtistaðar í miðborginni vegna manns sem hafði spreyjað piparúða á þá, eftir að þeir hleyptu honum ekki inn laust fyrir klukkan 04 í nótt.

Þetta segir í dagbókarfærslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina sem leið. Þar segir einnig að lögregla hafi haft afskipti af ungmennum sem voru inni á skemmtistað án þess að hafa til þess aldur og að tilkynnt hefi verið um slagsmál í miðborginni á fimmta tímanum. Málið hafi verið leyst á vettvangi.

Eldur í nýbyggingu og maður í runna

Þá segir að á þriðja tímanum hafi lögregla farið á vettvang í Kópavogi þar sem eldur hafði kviknað í nýbyggingu. Talsvert tjón hafi orðið af og loka hafi þurft svæðinu á meðan á slökkvistarfi stóð. Eldsupptök séu ókunn og málið í rannsókn.

Loks segir að í umdæmi lögreglustöðvar fjögur, sem nær yfir Árbæ, Grafarholt, Grafarvog, Norðlingaholt, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp og Kjalarnes, hafi verið tilkynnt um ölvaðan mann að sparka í bíla á þriðja tímanum. Lögregla hafi rætt við manninn, málið verið leyst á vettvangi og maðurinn lofað að koma sér heim.

Rúmum klukkutíma síðar hafi verið tilkynnt um mann sofandi í runna og vegfarendur hafi haft áhyggjur af honum. Í ljós hafi komið að um sama mann var að ræða og honum komið heim til sín. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×