Erlent

Hálfétinn hvítháf rak á land í Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Háhyrningur er talinn hafa drepið hákarlinn og étið úr honum lifrina. Þetta er ekki sá hákarl.
Háhyrningur er talinn hafa drepið hákarlinn og étið úr honum lifrina. Þetta er ekki sá hákarl. EPA/HELMUT FOHRINGER

Hræ hálfétins hvítháfs rak nýverið á land í Ástralíu. Svo virðist sem hákarlinn hafi verið rifinn í tætlur en talið er að háhyrningur hafi banað dýrinu.

Hákarlinn, sem sagður er hafa verið um þrír metrar að lengd, fannst í fjörunni við Bridgewater-tanga en ljósmyndari sagði ríkisútvarpi Ástralíu að háhyrningar hefðu verið á svæðinu nokkrum dögum áður.

Fyrr í þessum mánuði réðst hákarl á konu undan ströndum Beachport, sem liggur norður af Bridgewater. Konan var bitin í fótinn en tókst að kalla eftir hjálp og var bjargað. Talið er að hún muni ná sér að fullu.

Konan var með hópi sundmanna þegar hún var bitin tvisvar sinnum en maður sem hjálpaði henni sagði hana heppna að hafa lifað af.

Áðurnefnt hákarlshræ hefur verið tekið til rannsóknar en í samtali við ABC segir vísindamaður líklegt að háhyrningur hafi drepið hákarlinn og étið úr honum lifrina. Þetta sjáist reglulega þegar háhyrningar drepi hákarla. Þeir eigi það einnig til að drepa hvali og éta ekkert úr þeim nema tunguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×