Enski boltinn

Á­kall Mo Salah: Leið­togar heimsins verða að stöðva frekari slátrun sak­lauss fólks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool stórstjarnan Mohamed Salah sendi leiðtogum heimsins skilaboð á samfélagsmiðlum.
Liverpool stórstjarnan Mohamed Salah sendi leiðtogum heimsins skilaboð á samfélagsmiðlum. Getty/Andrew Powell

Liverpool leikmaðurinn og Egyptinn Mohamed Salah hefur tjáð sig um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem Ísraelsmenn hafa svarað hryðjuverkaárás Hamas-samtakanna með mikilli hörku og stöðugum árásum sem hafa kostað þúsundir Palestínumanna lífið.

Salah setti inn myndband á samfélagsmiðla með ákall um frið og að fólkið á Gasaströndinni fengi mat, vatn og sjúkragögn sem fyrst.

Salah talar á ensku í myndbandinu og beinir orðum sínum sérstaklega til Vesturlanda.

„Það er búið að vera of mikið ofbeldi og átakanleg grimmd. Það hefur verið hræðilegt að fylgjast með stigmögnun ástandsins,“ sagði Mohamed Salah.

„Öll líf skipta máli og það verður að verja þetta fólk. Þessu verður að linna. Fjölskyldur eru sundraðar. Það er ljóst að það verður núna að leyfa mannúðaraðstoð fyrir fólkið á Gasa. Fólkið þar lifir við hræðilegar aðstæður,“ sagði Salah.

„Atburðurinn á sjúkrahúsinu var óhugnanlegur. Fólkið á Gasa þarf mat, vant og sjúkragögn án tafar. Ég kalla eftir því að leiðtogar heimsins stöðvi frekari slátrun saklauss fólks. Manngæskan verður að hafa betur,“ sagði Salah eins og sjá má hér fyrir neðan.

Ísraelsmenn samþykktu í gær að hleypa neyðaraðstoð til handa íbúum Gasa yfir landamærin við Egyptaland. Alls verður tuttugu flutningabílum hleypt yfir landamærin en Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að samkomulagið væri háð eftirliti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×