Fótbolti

Hermoso valin í landsliðið í fyrsta sinn frá kossinum óumbeðna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jennifer Hermoso með heimsmeistarabikarinn sem Spánn vann í fyrsta sinn síðsumars.
Jennifer Hermoso með heimsmeistarabikarinn sem Spánn vann í fyrsta sinn síðsumars. getty/Alex Pantling

Fótboltakonan Jennifer Hermoso hefur verið valin í spænska landsliðið í fyrsta sinn frá rembingskossinum óumbeðna sem Luis Rubiales, fyrrverandi forseti spænska knattspyrnusambandsins, rak henni eftir úrslitaleik HM.

Rubiales var harðlega gagnrýndur fyrir kossinn en neitaði lengi vel að segja af sér sem forseti spænska knattspyrnusambandsins. Hann gerði það þó loks 10. september.

Rubiales er til rannsóknar hjá spænskum yfirvöldum og hann hefur verið settur í nálgunarbann og má ekki koma nálægt Hermoso.

Hún var ekki valinn í spænska landsliðið í síðasta mánuði. Nýi landsliðsþjálfarinn, Montse Tomé, sagðist vilja vernda Hermoso en sagði að dyrnar í landsliðið stæðu henni opnar.

Tomé stóð við það og valdi Hermoso í spænska landsliðshópinn sem mætir Ítalíu 27. október og Sviss fjórum dögum seinna í Þjóðadeildinni.

Hin 33 ára Hermoso, sem leikur með Pachuca í Mexíkó, hefur leikið 101 landsleik og skorað 51 mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×