Skoðun

Ísrael, Hamas og Gaza

Ólafur Sveinsson skrifar

Benjamin Netanjahu og fleiri núverandi og fyrrverandi ráðherrar í Ísrael hafa lýst því yfir að það eigi að jafna Gazaborg við jörðu - sumir bætt við að henni verði bókstaflega breytt í tjaldborg. Þeir hafa líka lýst því yfir að eitt af markmiðunum með því að þvinga íbúa Gazaborgar til suðurhluta Gazastrandarinnar sé að neyða Egypta til að opna landamærin yfir á Sínaíeyðimörkina því „þar sé nóg plass fyrir flóttamannabúðir og tjaldborg“. Þeir eru ekki tilbúnir að gefa loforð um að íbúarnir geti snúið aftur. Á Vesturbakkanum gera ísraelskir landtökumenn og herinn sífellt fleiri árásir á Palestínumenn og markmiðið er augljóslega að hrekja þá líka í burtu frá hernumdu svæðunum.

Öll helstu sjúkrahúsin á Gazaströndinni eru í Gazaborg og hjálparsamtök sem taka þátt í að reka þau hafa lýst því yfir að ef ekki komi eldsneyti fyrir rafalana þar innan eins til tveggja sólarhringa, matur, vatn og lyf, muni mörg þúsund manns deyja. Ísrael hefur að hluta til opnað fyrir vatn í suðurhluta Gazastrandarinnar, þó sú staðreynd að þar er ekkert rafmagn til að knýja vatnspumpur valdi því að aðgangur almennings að vatni er mjög takmarkaður. Þar er engin aðstaða er til að taka á móti þeim hundruðum þúsunda flóttamanna sem þangað eru komnir, enginn matur, ekkert húsnæði fyrir allan þennan fjölda, svo mjög margir eru bókstaflega á götunni og verða að sofa þar. Ísraelar neita að hleypa vörubílum sem standa í löngum röðum við landamærin inn á Gaza með mat, vatn, tjöld, lyf og aðrar nauðþurftir. Gamli síonistadraumurinn um að gyðingar ráði einir yfir landinu helga eins og því er lýst í Gamla testamentinu og þeir telja sig eiga rétt á vegna þess að Guð hafi gefið þeim það, virðist innan seilingar. Til að það takist er nauðsynlegt að hrekja Palestínumenn á brott og ef nauðsyn krefur, drepa þá.

Hamassamtökin frömdu ófyrirgefanlegt ódæði - það er ekki spurning - og ættu að sleppa öllum gíslum sínum lausum þegar í stað. Og auðvitað vissu foringjar Hamas hvað þeir væru að kalla yfir sig og palestínsku þjóðina - þó viðbrögðin séu hugsanlega heiftarlegri en þeir gerðu ráð fyrir. Hamas hefur undirbúið þetta stríð lengi og stjórnendurnir eru sannfærðir um að hermenn þeirra geti sigrað ísrelska herinn í götubardögum eða í það minnsta sýnt umheiminum og arabaríkjunum fram á hverskonar skepnur Ísraelar eru með því að víla ekki fyrir sér að drepa óbreytta borgara í tugþúsunda tali, þar sem mikill meirihluti eru börn og konur. Margir fullyrða að þetta sé úthugsuð gildra sem að Ísraelar séu að ganga í með því að ráðast inní Gazaborg, í stríð sem þeir séu dæmdir til að tapa, hvernig sem bardagarnir enda. Og ég held það sé heilmikið til í því.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður




Skoðun

Sjá meira


×