Innlent

Laugar­nes­­skóla­­málið ein­stakt til­vik og blygðunar­­semis­brot

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skólastjóri Laugarnesskóla segir leitt „hvernig umfjöllun í fjölmiðlum síðdegis atvikaðist.“
Skólastjóri Laugarnesskóla segir leitt „hvernig umfjöllun í fjölmiðlum síðdegis atvikaðist.“ Vísir/Vilhelm

Mál starfsmanns í Laugarnesskóla, sem var handtekinn á fimmtudag og er grunaður um kynferðisbrot, er rannsakað sem blygðunarsemisbrot. Þetta kemur fram í tölvupósti sem skólastjóri skólans sendi á foreldra og forsjáraðila. 

Fyrr í dag staðfesti Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að málið væri rannsakað sem kynferðisbrot. Hann gæti þó ekki farið nánar út í sakarefnið. 

Einstakt atvik

Í póstinum sem Björn Gunnlaugsson sendi foreldrum segir að starsfólki skólans þyki leitt „hvernig umfjöllun í fjölmiðlum síðdegis atvikaðist.“ Ákjósanlegt hefði verið ef skólinn gæti miðlað upplýsingum til foreldra áður en fréttir af málinu yrðu fluttar.

„Nú í lok dags fengum við staðfest hjá lögreglu að verið er að rannsaka málið sem blygðunarsemisbrot og að það sé ekkert sem bendi til annars á þessari stundu en að um einstakt tilvik hafi verið að ræða. Lögregla hefur einnig tjáð okkur að málið sé í forgangi og að vonandi verði hægt að veita nánari upplýsingar á næstu dögum.

Að lokum vil ég biðjast velvirðingar á því hve seint þessi póstur berst, en talið var mikilvægt að hafa samráð við foreldra þeirra barna sem eiga í hlut áður en hann var sendur,“ segir í póstinum. 

Að sögn Gríms er búið að yfirheyra starfsmanninn, sem hefur stöðu sakbornings. Þá standi til að taka skýrslur af nokkrum börnum í Barnahúsi, en Grímur hafði ekki tölu á þeim börnum sem málið tengist.

Starfsmaðurinn hefur verið sendur í leyfi meðan málið er til rannsóknar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×