Um­fjöllun: Ís­land - Lúxem­­borg 1-1 | Sár von­brigði í endur­komu Gylfa

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Laugardalsvöll með landsliðinu í kvöld, í fyrsta sinn í þrjú ár.
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Laugardalsvöll með landsliðinu í kvöld, í fyrsta sinn í þrjú ár. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Ís­lenska karla­lands­liðið í fót­bolta varð að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Lúxemborg á Laugardalsvelli í kvöld. Þar með er vonin um að komast beint á EM úr undankeppninni algjörlega úr sögunni.

Þrátt fyrir algjöra yfirburði og mörg færi íslenska liðsins í fyrri hálfleik var staðan aðeins 1-0 að honum loknum, eftir fyrsta landsliðsmark hins 19 ára gamla Orra Steins Óskarssonar.

Lúxemborg jafnaði metin strax í upphafi seinni hálfleiks, með marki varamannsins Gerson Rodrigues, og Íslandi gekk mun verr að skapa sér færi en í fyrri hálfleiknum.

Gylfi Þór Sigurðsson var einn þriggja varamanna sem komu inn á þegar tuttugu mínútur lifðu leiks, í sínum fyrsta landsleik í tæp þrjú ár, en tókst ekki frekar en öðrum að finna sigurmarkið og niðurstaðan því mikil vonbrigði.

Fyrir leikinn var hægt að teikna upp möguleika á að komast beint á EM, þrátt fyrir slæmt gengi Íslands í undankeppninni, en íslenska liðið hefur kastað þeim möguleika út á hafsauga með því að fá aðeins eitt stig úr tveimur leikjum við slakt lið Lúxemborgar. Það sýnir hvar íslenska liðið er statt og hve mikið þarf að breytast ef varamöguleikinn, umspilið í mars, á að geta nýst.

Fyrri hálfleikurinn í kvöld gaf samt allt annað til kynna. Ung, íslensk miðja og sókn skapaði sér fullt af frábærum færum og var Orri kominn með færi strax á fyrstu mínútu. Skagatríóið sem Ísak Bergmann, Hákon Arnar og Arnór Sigurðsson mynda skapaði sér einnig afar álitleg færi og til að mynda hafði Arnór átt þrumuskot í þverslána og út, áður en Orri Steinn skoraði á 23. mínútu af stuttu færi eftir fyrirgjöf Arnórs.

Svona hélt íslenska liðið áfram og maður komst ekki hjá því að spyrja sig hvernig í ósköpunum það gat steinlegið í útileiknum gegn Lúxemborg fyrir aðeins mánuði síðan.

Orri Steinn Óskarsson skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í kvöld og fagnaði því vel.vísir/Hulda Margrét

En Ísland komst svo langt á sínum tíma, svo að það vakti heimsathygli, vegna þess að liðinu tókst svo ótrúlega vel að forðast mistök. Mistökin elta hins vegar núverandi lið og menn gleymdu sér illilega í upphafi seinni hálfleiks þegar gestirnir jöfnuðu metin.

Gerson Rodrigues, sem vissulega er markahæsti leikmaður í sögu Lúxemborgar með nú 17 mörk, hafði bara verið inni á vellinum í mínútu þegar hann jafnaði metin með einföldu skoti utan teigs. Algjört, meiriháttar kjaftshögg fyrir alla Íslendinga á Laugardalsvelli í kvöld, og því miður náðu leikmennirnir aldrei að hrista það af sér þannig að sami kraftur væri í þeim og í fyrri hálfleiknum.

Viðureignin var mun jafnari í seinni hálfleiknum og lítið um færi framan af, en Lúxemborg á mjög raunhæfa möguleika á að komast í fyrsta sinn á stórmót og vissi vel að jafntefli gæti reynst dýrmætt. Ísland varð hins vegar að ná í sigur til að eiga einhvern séns og um miðjan seinni hálfleik fóru áhorfendur að kalla ákaft eftir því að Gylfi kæmi inn á völlinn, til að hressa upp á sóknarleikinn að nýju.

Gylfi Þór Sigurðsson á leið inn á völlinn með landsliðinu í fyrsta sinn í þrjú ár. Hann leysti Ísak Bergmann Jóhannesson af hólmi.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Ótal sinnum hefur Gylfi gert gæfumuninn á Laugardalsvelli en það er ansi ósanngjarnt að setja þá kröfu á mann sem hefur spilað samtals 46 mínútur frá vorinu 2021. Hvort sá tími á eftir að renna upp að nýju verður einfaldlega að koma í ljós. Gylfi átti þó ágætar hornspyrnur og eina aukaspyrnu úr sinni uppáhalds stöðu sem fór rétt ofan á höfuð eins af mönnunum í varnarvegg Lúxemborgar.

Gylfi, Alfreð Finnbogason og Jón Dagur Þorsteinsson komu allir inn á þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og Jón Dagur komst næst því að skora sigurmark þegar skot hans fór í stöngina og framhjá, eftir fyrirgjöf fjórða varamannsins, Mikaels Anderson, rétt fyrir leikslok.

Hákon Arnar Haraldsson með boltann en varnarmenn Lúxemborgar spörkuðu ósjaldan í hann í leiknum í kvöld.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Til marks um það að ekkert nema sigur dygði Íslandi til að eiga möguleika á 2. sæti riðilsins þá fór Rúnar Alex markvörður fram í hornspyrnu í uppbótartíma leiksins, en komst ekki í boltann og í staðinn fékk Rodrigues algjört dauðafæri til að tryggja Lúxemborg sigur en skaut framhjá, með Rúnar Alex á sprettinum heim í markið.

Ísland á nú eftir þrjá leiki í undankeppninni, gegn Liechtenstein á mánudag og svo við Slóvakíu og Portúgal á útivelli í nóvember. Þessir leikir eru nú formlega orðnir að undirbúningi fyrir væntanlegt umspil í mars og Ísland þarf svo sannarlega á þeim undirbúningi að halda.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira